Íslenska landsliðið í blönduðum flokki unglinga nældi sér í brons á Evrópu­meistara­mótinu í hóp­fim­leikum í Portúgal í kvöld. Bret­land fór með sigur á hólmi í flokknum og lentu Svíar í öðru sæti.

Sænska liðið fór inn í úr­slitin í efsta sætinu en meiðsli gerði liðinu erfitt fyrir í úr­slitunum í dag. Íslenska liðið átti flottan dag heilt yfir en nokkur föll á dýnu og trampólíni komu í veg fyrir að liðið náði að skáka bresku og sænsku liðunum.

Jóhann Gunnar Finnsson flaug manna hæst á trampólíninu í dag.
Ljósmynd/Stefán Pálsson

Íslenska liðið getur hins vegar verið ánægt með frammistöðu sína enda bætti það árangur sinn úr undankeppninni um næstum tvö heil stig og tryggðu sér brons verðlaun um leið.

Íslenska karlalandsliðið var mætt á pallana að styðja unglingana áfram. Karlarnir keppa á morgun.
Ljósmynd/Stefán Pálsson

Breskir hóp­fim­leikar hafa verið í mikilli sókn síðustu ár og endaði lið þeirra í blönduðum flokki með 52.425. Svíar voru með 50.050 og Ís­land með 49.450.

Það er einstaklega góð stemming í blandaða unglingaliðinu.
Ljósmynd/Stefán Pálsson

Fjór­tán lönd eru mætt á EM í hóp­fim­leikum og keppa sex til úr­slita í hverjum flokki.

Beneditkt Rúnar Valgeirsson, einn þjálfara liðsins, ánægður með árangurinn.
Ljósmynd/Stefán Pálsson