Leiknum lauk með 5-0 sigri Liverpool sem komst yfir strax á 5. mínútu og var þremur mörkum yfir í hálfleik. ,,Það var bara skelfilegt fyrir stuðningsmenn Manchester United á vellinum að horfa upp á þessa niðurlægingu. Maður skynjaði mikla reiði og hita í mannskapnum þegar staðan var orðin svört strax í fyrri hálfleik og það voru margir sem strunsuðu út af leikvanginum áður en dómarinn flautaði til hálfleiks,“ segir Björn, sem hefur verið stuðningsmaður Manchester United alla sína tíð, í samtali við Fréttablaðið.

Leiknum lauk með 5-0 sigri Liverpool
GettyImages

Þetta var í fyrsta skipti sem Björn gerði sér ferð á heimavöll Manchester United. ,,Ég hafði farið á leik áður í ensku úrvalsdeildinni en hafði aldrei farið á Old Trafford áður. Það var stórkostlegt að fara og upplifa stemmninguna á vellinum en ég vænti auðvitað betri úrslita og bjóst við meiri hörku en ekki þessari einstefnu og markasúpu.“

Bað ekki um endurgreiðslu

Björn fór út á leikinn í hópi fólks á vegum ferðaskrifstofunnar Visitor. Aðspurður um það hvort hann hafi beðið um endurgreiðslu eftir niðurstöðu leiksins segir hann það ekki hafa staðið til. ,,Nei ég gerði það nú ekki, það er ekki á ábyrgð þeirra að lofa manni réttum úrslitum maður verður að taka þátt í tapinu líka,“ segir Björn og hlær. ,,Þessi tími sem ég hef stutt Manchester United hefur verið frábær og forréttindi að fylgjast með liðinu. Maður vissi það eftir að Sir Alex Ferguson lét af störfum að það gæti brugðið til beggja vona en eyðimerkurgangan hefur verið ansi löng.“

Hann er ekki alveg viss hvort að Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, sé kominn á endastöð. ,,Það er rosalega erfitt að meta það, hann er búinn að gera frábæra hluti tölfræðilega séð þó svo að titlarnir hafi látið á sér standa en síðustu leikir hafa verið skelfilegir og liðið virðist hafa misst tempó við komu Ronaldo, það er eitthvað mikið að hjá liðinu,“ segir Björn Þórir Sigurðsson, stuðningsmaður Manchester United í samtali við Fréttablaðið.