Karlalið KR í körfubolta hefur orðið fyrir blóðtöku en Björn Kristjánsson, bakvörður liðsins, verður ekki meira með á yfirstandandi keppnistímabili. Þetta kemur fram í frétt inni á kr.is í dag.

Björn þarf að fara í aðgerð á mjöðm vegna meiðsla þar sem hafa verið að angra kappann í rúmt ár. Þessi öflugi leikmaður mun fara í aðgerð á mjaðmakúlu á næstunni og verður frá í 4-5 mánuði vegna þeirrar aðgerðar.

Hann hefur einungis leikið þrjá leiki í Domino's-deildinni í vetur vegna meiðsla sinna en hann hefur skorað átta stig að meðaltali í þeim leikjum, tekið þrjú fráköst og gefið tvær stoðsendingra.

KR sem situr í fimmta sæti Domino's-deildarinnar með 12 stig eftir 10 umferðir sækir Grindavík heim í fyrstu umferð eftir jólafrí í Mustad-höllina suður með sjó í kvöld.