Björn Þorfinnsson ritstjóri DV segir í pistli frá ótrúlegum senum úr ungversku stúkunni þegar íslensku strákarnir heilluðu alla áhorfendur þrátt fyrir grimmilegar aðstæður.
Björn dreif sig ásamt fjölskyldunni til Búdapest til að fylgjast með íslenska karlalandsliðinu í handbolta. Hann var uppfullur af von þegar miðar voru keyptir en fljótlega barst honum fréttir af Covid-smitum.
Á leik Íslands gegn Dönum fann Björn fyrir miklum hroka frá stuðningsmönnum Dana sem töldu leikinn auðunninn. „Það var eiginlega alveg unaðslegt að fylgjast með okkar mönnum stíga upp og berjast allir sem einn þrátt fyrir þau áföll sem dunið höfðu á liðinu,“ skrifar Björn í færslunni.
Þrátt fyrir að Danir hafi að lokum unnið leikinn segir Björn að það hafi verið greinilegt á öllum í höllinni hvaða lið var sigurvegari leiksins.
Sögulegur sigur gegn Frökkum
Fram að leiknum gegn Frökkum bættust við tvö smit hjá lykilleikmönnum. „Því voru væntingarnar enn hófstilltari fyrir leikinn í gær,“ skrifar Björn.
Það reyndust þó vera óþarfar áhyggjur þar sem Íslendingar gáfu auðvitað ekkert eftir þrátt fyrir áföllin. Fljótt var þrautseiga þeirra búin að hrífa alla höllina með sér.
„Eftir því sem íslensku mörkunum fjölgaði fann maður glöggt að Íslendingar voru að vinna áhorfendur á sitt band og fljótlega voru Ungverjarnir í kringum okkur farnir að öskra með hverju íslensku marki og snúa sér að okkur til að fá háar fimmur við hvert tækifæri,“ segir Björn. Í stúkunni heyrði Björn Ungverja og Króata dásama íslenska liðinu af ákafa.
Björn taldi jafnvel Frakkana hafa heillast af andstæðingum sínum. „Þeir voru hljóðlátir en að sama skapi virtust þeir ekkert sérstaklega vonsviknir með það sem þeir urðu vitni að, svo sögulegur var þessi sigur í ljósi aðstæðna,“ skrifar hann.
Þá segir Björn íslensku leikmennina hafa lagt sitt af mörkum við að halda uppi stemningu í höllinni. „Maður fékk ítrekaða gæsahúð, ekki síst þegar að einhverskonar túrbóútgáfa af víkingaklappinu dáða var keyrð í gegn og höllin tók undir. Þetta voru lygilegar senur,“ skrifar hann.