Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handbolta spyr sig í færslu á samfélagsmiðlum sem birtist í dag hvort bygging nýrrar þjóðarhallar í íþróttum sé mikilvægasta verkefnið sem ráðast þurfi í á þessari stundu. Björgvin segist þó til í að grípa í skóflu verði ákveðið að byggja höllina en segist einnig vera tilbúinn til þess að spila landsleiki fjarri Íslandi ef það verðut til þess að ,,heilbrigðiskerfið haldi velli."

Hinn margreyndi markvörður segist vera rosalega til í að sjá nýja þjóðarhöll rísa. ,,En við þurfum líka að sjá heiminn með augun annarra. Á tímum sem þessum spyr èg mig hvort það sè það mikilvægasta, horfandi á úrelt húsnæði geðdeilda, lèlega þjónustu við aldraða og fatlaða og slæma geðheilsu barna og ungmenna. Þó að eitt þurfi ekki að útiloka annað þá bið èg fólk að skoða hlutina útfrá rèttri forgangsröðun."

Umræða um byggingu nýrrar þjóðarhallar hefur staðið yfir undanfarin ár en lítið virðist þokast áfram. Dagur B. Eggertson, borgarstjóri Reykjavíkur segist bíða eftir ríkinu varðandi ákvörðun um næstu skref og segir Reykjavíkurborg vera búna að taka til hliðar tvo milljarða í verkefnið.

Bæði íslenku landsliðin í handbolta og körfubolta eru á undanþágum vegna Laugardalshallarinnar sem er barn síns tíma og þykir ekki uppfylla þær kröfur sem settar eru til þess að fá að hýsa landsleiki. Það gæti því farið svo að íslensku landsliðin myndu spila heimaleiki sína utan landssteinanna verði ekkert gert í málunum.

Björgvin Páll segist vera klár í að grípa í skóflu ef ákveðið verður að byggja nýja þjóðarhöll. ,,En ef krónurnar eru ekki til… þá er èg líka klár í að spila landsleiki næstu ára í Danmörku eða í Færeyjum ef að það verður til þess að heilbrigðiskerfið haldi velli."