Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins, kemst í dag upp fyrir Þorgils Óttar Mathiasen og Jakob Óskar Sigurðsson og á lista yfir tíu leikjahæstu leikmenn karlalandsliðsins frá upphafi.

Björgvin leikur 248. leik sinn fyrir Íslands hönd í dag þegar Ísland mætir Ungverjalandi.

Ásgeir Örn Hallgrímsson (255), Snorri Steinn Guðjónsson (257), Valdimar Grímsson (271), Róbert Gunnarsson (276) og Júlíus Jónasson (288) eru ekki langt undan Björgvini.

Heldur lengra er í Ólaf Stefánsson sem lék 330 leiki fyrir landsliðið, Geir Sveinsson sem lék 340 leiki, Guðjón Val Sigurðsson sem á að baki 364 leiki og Guðmund Hrafnkelsson sem á leikjametið með 407 leiki.

Þá getur Bjarki Már Elísson náð hundrað landsleikjum fyrir Íslands hönd á mótinu en ef Ísland kemst upp úr milliriðlunum leikur Bjarki sinn hundraðasta leik í átta liða úrslitunum.

Með því yrði Bjarki Már fjórði leikmaður núverandi leikmannahóps og 57. leikmaður Íslands frá upphafi sem nær þessum áfanga.

Bjarki sem hefur verið meðal bestu hornamanna heims undanfarin ár hefur fest sig í sessi sem fyrsti kostur í stöðu hornamanns hjá Strákunum okkar eftir að hafa beðið um árabil eftir tækifærinu á meðan Guðjón Valur Sigurðsson lék með landsliðinu.

Bjarki er kominn með 93 leiki og vantar því sjö leiki til að komast í hundrað leiki. Ef Bjarka tekst að spila alla leiki og Ísland kemst í átta liða úrslitin leikur Bjarki hundraðasta leik sinn í Stokkhólmi þann 25. janúar næstkomandi. Þá vantar hann þrjú mörk til að ná þrjú hundruð mörkum fyrir Ísland. n