Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í handbolta er harðorður í garð skipuleggjenda Evrópumótsins í handbolta sem fer fram í Ungverjalandi og Slóvakíu þessa dagana.

Í færslu sem hann birti á Facebook í dag, beinir Björgvin, sem er á sínum þriðja degi í einangrun eftir að hafa greinst með Covid-19 á mótinu, sjónum sínum að hlutverki Ungverja í skipulagningu á mótinu.

,,Jæja þarf aðeins að pústa á þriðja degi í einangrun... Þetta EM er til skammar. Hlýtur að vera slakasta frammistaða heimaþjóðar á stórmóti frá upphafi, innan vallar sem utan. Flott að hafa allavega náð að henda þeim út úr mótinu... Hafa leikið okkur grátt í boltanum síðustu ár," segir meðal annars í færslu sem Björgvin birti í dag.

Alls hafa sex leikmenn íslenska landsliðsins greinst með Covid-19 en umræða um skipulagningu mótsins hvað sóttvarnir varðar, skaust upp á sjónarsviðið í upphafi móts.

Eftir að hafa verið í sóttvarnarbúbblu hér heima á Íslandi, flugu leikmenn og þjálfarar Íslands út þar sem allt annað ástand tók á móti þeim. Íslenska liðið deilir hóteli með fullt af ferðamönnum sem og öðrum liðum, deilir matsölum og erfitt hefur reynst fyrir lið mótsins að halda fjarlægð við aðra til þess að koma í veg fyrir smit.

,,Jæja áfram gakk! Næsti leikur, næsta stríð og allt það! Þetta er ekki búið... Ooooo berjast! " skrifar Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður Íslands í færslu á Facebook.