Það var dregið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta í dag. Valur var í pottinum og lenti í B-riðli, þar sem liðið mætir Flensburg, PAUC, Benidorm, Ferencvaros og Ystads. Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, er gríðarlega spenntur fyrir komandi verkefnum.

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt, geggjuð blanda af skemmtilegum ferðalögum, stórkostlegum mótherjum og svo liðum sem er gaman að mæla sig við,“ segir Björgvin við Fréttablaðið í dag.

„Þetta verður geggjað fyrir félagið í heild sinni, skemmtileg ferðalög, sem er ekkert sjálfsagt í svona Evrópukeppni.“

Valur er til að mynda með stórliði Flensburg í riðli. Fjögur lið af sex fara áfram og er stefnan sett upp úr riðlinum.

„Það verður einhver viðureign að eiga við þá en við verðum ekkert litlir í okkur og ætlum ekkert að verða neitt fallbyssufóður í þessari keppni. Við ætlum bara að njóta þess að vera þarna og nota meðbyrinn sem við erum búnir að vera með undanfarna mánuði. Það er mikilvægt fyrir íslenskan handbolta að við gerum einhverja hluti þarna og sínum að hann sé kominn á geggjaðan stað.

Maður er enn að lesa í þennan riðil. Auðvitað erum við að fara í alla leiki til að sigra. Það verður auðvitað erfitt á móti Flensburg og PAUC, sem er lið sem allir þekkja ekkert rosalega mikið en er alveg frábært. En hin liðin, okkur langar að stríða þeim, sérstaklega á heimavelli.“

Það má þó ekki tapa sér í Evrópugleðinni. Valur vill einnig gera vel í Olís-deildinni hér heima, þar sem liðið er efst með fullt hús stiga eftir fimm leiki.

„Það er bara lykilatriði að halda haus, halda einbeitingu á sínum verkefnum. Við erum að spila vel hérna heima og það er ástæðan fyrir því að við erum að spila í Evrópukeppni. Við verðum að halda því áfram því það er grunnurinn að öllu öðru,“ segir Björgvin Páll Gústavsson.