Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson var harðorður í garð ungverskra stjórnvalda þegar hann ræddi við Kastljós í kvöld. Markmaðurinn bíður niðurstöðu úr PCR prófi eftir að hafa greinst með Covid-19 á hraðprófi, degi eftir að hann var mældur með mótefni eftir að hafa jafnað sig af veirunni.

Björgvin smitaðist í aðdraganda leiks Íslands og Danmerkur á dögunum en var búinn að ná sér og fékk því að taka þátt í leik Íslands og Króatíu í gær. Í morgun bárust fréttir að Björgvin hefði greinst með Covid-19 á hraðprófi og er því kominn í einangrun á ný.

„Þetta eiginlega stenst ekki landslög, að setja mig í einangrun í Ungverjalandi. Ég ætti að vera laus en reglur mótsins ná yfir landslögin, þannig að. hypothetically gæti ég mætt á morgun sem áhorfandi en ekki sem leikmaður en við sjáum til í kvöld,“ sagði Björgvin í samtali við Kastljós í kvöld.

„Við erum að krefjast svara. Nikola Karabatic spilaði gegn leikinn gegn okkur á jákvæðu prófi og hann smitaðist á milli jóla og nýárs. Það eru virk smit, óvirk smit, CD gildi sem virðast detta upp og niður og þetta er pattstaða sem við erum komin í. Ég set reglurnar í uppnám með að vera kominn í einangrun aftur á sjöunda degi eftir að hafa spilað á mótinu. Ég reyni að taka þessu með jafnaðargeði og skemmta fylgjendum a Instagram.“

Björgvin tók undir fyrri gagnrýni Guðmundar Guðmundssonar, þjálfara landsliðsins, í garð mótshaldara, þegar hann var spurður hvort að mótshaldarar væru búnir að missa tökin.

„Ég held að þeir hafi misst tökin þegar við löbbum hérna inn. Við förum í okkar búbblu annan janúar á Grand Hótel, þar var allt til fyrirmyndar. Á degi eitt labbaru hérna inn og mætir túristum, full hótel af turistum, grímulaus og ekki að spritta sig, í bland við handboltalið. Við reyndum að spritta okkur, notuðum grímur og hanska í matsalnum en þaðkom engum á óvart þegar fyrstu smitin komu upp,“ sagði Björgvin og hélt áfram:

„Viðbrögð Ungverja við faraldrinum eru ömurleg og þetta er virðingarleysi gagnvart handboltann. Seinni hluta mótsins hefur voðalega lítið breyst, gestirnir sem voru a hótelinu eru farnir en allt utanumhald er hræðilegt. Maður bíður eftir niðurstöðum úr prófi sem á að berast á hálftíma en kemur degi síðar. Allir þessir prófessorarar frá EHF og læknar sem eiga að sjá um þetta ráða ekkert við þetta. “