Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, vísaði máli Björgvins Stefánssonar, leikmanns KR, til aganefndar í gær. Taki aganefndin málið upp og dæmi Björgvin eftir 16. grein um aga og úrskurðarmál má búast við að Björgvin verði dæmdur í allt að fimm leikja bann. Björgvin hefur skorað þrjú mörk í fyrstu fimm leikjum KR en liðið situr í fjórða sæti.

Björgvin var að lýsa leik Hauka og Þróttar á Youtube-rás Hauka og þegar hiti komst í leikmenn sagði Björgvin eftir smá þögn í lýsingarklefanum: „Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum.“ Sindri Hjartarson benti fyrst á ummælin á Twitter.

Björgvin sagði sjálfur á samfélagsmiðlinum að ummæli hans lýstu engan veginn afstöðu sinni í garð þeirra sem séu dökkir á hörund frekar en annarra minnihlutahópa. „Ég gerðist sekur um hrapallegt dómgreindarleysi og biðst innilegrar afsökunar á þessum heimskulegu ummælum mínum,“ skrifaði hann.

Klara segir í samtali við Fréttablaðið að hún hafi sent aga- og úrskurðarnefnd bréf þar sem hún reifi málið og vitni í 21. grein um aga- og úrskurðarmál þar sem kemur fram að framkvæmdastjóra sé heimilt að vísa atvikum til nefndarinnar sem skaðað geti ímynd knattspyrnunnar. „Ég vísaði framkomu umrædds leikmanns til nefndarinnar til skoðunar og óskaði eftir að hún tæki málið til skoðunar og ákveði hvort beita skuli viðurlögum. Það er nefndin sem ákveður það.“ Aga- og úrskurðarnefndin er óháð og hún ákveður hvort beita skuli viðurlögum.

Aganefndin hefur stundum með úrskurðum sínum komist á milli tannanna á knattspyrnuáhugamönnum og skemmst er að minnast þess þegar Þórarinn Ingi, leikmaður Stjörnunnar, fékk rautt spjald í Lengjubikarnum vegna ósæmilegra ummæla um geðsjúkdóma. Þá aðhafðist nefndin ekkert. „Þó að þetta mál sé alvarlegra en sum önnur sem við höfum tekið á þá er ferlið það sama og formsatriðin þau sömu. Nefndin fær þetta erindi og hún hefur samband við hlutaðeigandi sem getur komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Ég vona að þetta fari á næsta fund aga- og úrskurðarnefndar en tíminn er knappur,“ bendir Klara á.

Sá fyrsti sem var dæmdur í leikbann samkvæmt 16. greininni var Gylfi Örn Á. Öfjörð árið 2014 en þá var greinin ný af nálinni. Fékk hann fimm leikja bann fyrir kynþáttaníð og var félagið sektað um 100 þúsund krónur. Ári áður hafði knattspyrnudeild Keflavíkur verið sektuð um 30 þúsund krónur vegna kynþáttaníðs stuðningsmanns liðsins í garð Tonnys Mawejje en það hafði lengi verið hámarkssekt.

Björgvin Stefánsson, KR,
Guðni Bergsson, KSÍ