Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ, staðfesti í samtali við 433.is í dag að KSÍ væri að afla sér gagna um ummæli Björgvins Stefánssonar þegar hann lýsti leik Hauka og Þróttar í gær.

Björgvin gæti átt yfir höfði sér leikbann vegna rasískra ummæla eftir að hafa sagt í beinni útsendingu á leik Hauka í gær að honum fyndist stutt í villimannseðlið hjá fólki sem væri dökkt á hörund.

Fordæmi eru fyrir því að leikmenn hafi fengið refsingu frá KSÍ vegna ummæla sinna utan vallar.

Sóknarmaðurinn sendi frá sér tilkynningu á Twitter þar sem hann baðst afsökunar á ummælum sínum en Klara segir að KSÍ sé að rannsaka málið.

„Eins og staðan er núna erum við að safna gögnum, knattspyrnan fordæmir alla mismunun,“ sagði Klara við 433.is.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, tók í sama streng á Twitter í færslu sem lesa má hér fyrir neðan.