Knattspyrnumaðurinn Björgvin Stefánsson hefur verið lánaður frá liði sínu, KR, til KV sem leikur í 3. deild karla í knattspyrnu. Björgvin hefur ekkert leikið með KR-liðinu í uppafi leiktíðarinnar vegna meiðsla og mun hann koma sér í leikform hjá Knattspyrnufélagi Vesturbæjar.

Björgvin hefur skorað 11 mörk í þeim 36 leikjum hann hefur spilað fyrir KR. Lokað verður fyrir félagaskipti hér heima á miðnætti en opnað verður fyrir skipti leikmanna milli liða á nýjan leik 1. ágúst næstkomandi.

KV hefur leikið tvo leiki í 3. deildinni í sumar en liðið laut í lægra haldi fyrir Reyni Sandgerði í fyrstu umferð deildarinnar og lagði svo Hött/Huginn að velli í annarri umferðinni.

Hjá KV mun Björgvin hitta fyrir sinn fyrrverandi liðsélaga, Sindra Snæ Jensson og þá leika meðal annars með liðinu Grétar Sigfinnur Sigurðarson og Ingólfur Sigurðsson svo dæmi séu tekin. Sigurvin Ólafsson er á sínu öðru keppnistímabili sem þjálfari liðsins.