Ef tekið er saman meðaltal af fyrstu fimm leikjum Valsmanna má sjá að Björgvin hefur verið að verja fjórtán skot að meðaltali í leik og er með tæpa 46% markvörslu.

Björgvin Páll segir í samtali við Fréttablaðið í dag að erfitt sé að benda á eitthvað eitt sem ástæðu góðrar markvörslu sinnar: ,,Einna helst að ég er hluti af varnarkonsepti sem er öllum illviðráðanlegt. Við erum að spila magnaða vörn og það hjálpar mér gríðarlega mikið. Við erum að byggja upp leik okkar með þjálfarateyminu viljum byggja á frábæru tímabili Vals í fyrra.

Hann hrósar varnarlínu Valsmanna í hástert: ,,Ég held að það þurfi engan sérfræðing til þess að sjá að varnarmennirnir sem ég er með fyrir framan mig eru í háum gæðaklassa og ef eitthvað sleppur í gegnum vörnina þá reyni ég að grípa það. Þetta eru miklir varnarmenn fyrir framan mig og öðruvísi vörn sem við erum að spila ef við berum hana saman við varnir annarra liða.“

Skrifaði undir langtímaverkefni

Björgvin gekk til liðs við Valsmenn fyrir núverandi tímabil frá Haukum og gerði fimm ára samning við félagið, auk þess að vera leikmaður er hann hluti af þjálfarateymi liðsins. Valur varð Íslandsmeistari á síðasta tímabili og liðið ætlar sér að byggja ofan á árangur síðasta tímabils.

,,Við viljum vinna alla leiki og það hefur gengið frábærlega vel hingað til. Við fengum upp i hendurnar frábæra byrjun í leiknum um Meistara meistaranna og unnum þar okkar fyrsta titil á tímabilinu. Við erum með fullt af vopnum í okkar sóknar- og varnarleik og margir af þessum strákum eru að byggja ofan á frammistöðu síðasta tímabils,“ segir Björgvin Páll í samtali við Fréttablaðið.

Hann nýtur þess að spila á Hlíðarenda í augnablikinu og segir leikmannahópinn og þjálfarateymið í kringum liðið frábært: ,,Það eru fyrst og fremst bara forréttindi að spila með þessu liði. Ef að maður labbar inn á æfingar hjá Val þá sér maður að gleðin og ástríðan skín úr augum leikmanna og ef maður fer inn í klefa þá eru allir auðmjúkir og tilbúnir til þess að læra og bæta sig.

Ekki með hugann við íslenska landsliðið

Björgvin Páll á að baki 240 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og var meðal annars hluti af silfurliði Íslands frá Ólympíuleikunum 2008 og bronsliðinu 2010 frá EM í Austurríki. Hann hefur ekki leikið með landsliðinu undanfarið og er að eigin sögn ekki að einblína á að vinna sér inn sæti í liðinu.

,,Ég er voða lítið að velta landsliðinu fyrir mér núna. Ég er að fókusa á leik minn hér heima sem og fjölskyldu mína. Ég myndi skoða bara skoða það ef að því kæmi. En allavega næstu vikurnar myndi ég ekki gefa kost á mér í verkefni með landsliðinu,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals í samtali við Fréttablaðið.

Björgvin Páll í leik með íslenska landsliðinu
Mynd:Daníel Rúnarsson