Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður Íslands í handbolta, segist líða eins og hann sé í Fóstbræðrasketch eða að Auðunn Blöndal sé byrjaður aftur með þættina sína Tekinn þar sem að hann er nú í einangrun á Evrópumótinu í handbolta.

Björgvin er nú á níunda degi í einangrun og segist vera gjörsamlega vera kominn með nóg af ,,þessum farsa hjá þessu ömurlega EHF batteríi," í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlum fyrr í dag.

,,EHF er enn að halda mér í gíslingu inn á hótelherbergi níu dögum frá smiti sem stenst ekki landslög. EHF setti þær reglur í upphafi móts að menn gætu losnað á fimmta degi í einangrun ef að þeir sýna fram á CT gildi yfir 30. Ég sýndi fram á CT gildi upp á 38,1 og var sleppt," segir Björgvin í færslu sinni á samfélagsmiðlum.

Hann greinir síðan frá því að CT gildin hafa fallið á sjötta degi sem gerði það að verkum að hann var settur í einangrun á ný þrátt fyrir að EHF (Evrópska handknattleikssambandið) hafi engar reglur sett um að slíkt væri hægt að gera.

,,Þetta virðist þess vegna vera geðþóttaákvörðun einhverra lækna sem halda mér ennþá inni á hótelherbergi." Þá greinir Björgvin frá því að niðurstöður úr prófi sem hann og aðrir leikmenn Íslands fóru í í gær hafi ekki skilað sér vegna bilunar á rannsóknarstofunni sem greinir sýnin.

Björgvin segist vera kominn með gjörsamlega nóg. ,,Allt þetta helvíti er farið að triggera gamla góða fylgigigt sem gerir það að verkum að ég er farinn að smjatta á allt of miklu magni af verkjalyfjum til þess að halda mér gangandi ef ég ætti séns á að hjálpa strákunum gegn Noregi. Getið rétt ímyndað ykkur hvernig þetta allt saman er að fara með andlegu heilsuna."

Hann segir EHF hafa lofað að niðurstöður úr sýnatökunni berist á næstu klukkutímum. ,,Líður eins og ég sé fastur í einhverjum fóstbræðrasketch eða Auddi Blö sé byrjaður aftur með Tekinn," skrifar Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður Íslands, sem er í einangrun á Evrópumótinu í handbolta.

Ísland á leik gegn Noregi um 5. sæti mótsins og beint sæti á Heimsmeistaramótið á næsta ári, á morgun klukkan 14:30.