Íslenska karlalandsliðið í handbolta er enn með örlögin í eigin höndum í undankeppninni fyrir Evrópumótið 2020 eftir dramatískt 28-28 jafntefli gegn Grikklandi ytra í dag.

Ísland er með sex stig í öðru sæti riðilsins, tveimur stigum á undan Tyrklandi og Grikklandi þegar ein umferð er eftir.

Spilamennska liðsins var ekki góð í dag eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik en íslenska liðinu tókst að bjarga sér fyrir horn á lokasekúndunum.

Tyrkir þurfa að vinna ellefu marka sigur á Íslandi á sunnudaginn ef þeir ætla að komast upp fyrir Ísland í C-riðli.

Íslenska liðið byrjaði af krafti og var með frumkvæðið framan af þótt að illa gengi að hrista Grikkina frá sér líkt og í leik liðanna í Laugardalshöll.

Strákarnir okkar leiddu allan fyrri hálfleikinn en Grikkir komust yfir í fyrsta sinn í upphafi seinni hálfleiks.

Liðin áttu eftir að skiptast á forskotinu í seinni hálfleik og voru heimamenn með frumkvæðið stærstan hluta seinni hálfleiks.

Petros Boukovinas fór á kostum í marki Grikkja og tók fjölmörg skot frá íslenska liðinu sem skildi liðin að.

Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur í íslenska liðinu með níu mörk.