Talsverðar hræringar hafa verið á leikmannahópi KR það sem af er vetri og nokkuð ljóst að talsvert breytt lið mætir til leiks í vor er Íslandsmótið byrjar.

Aðspurður kveðst Páll Kristjánsson, formaður knattspyrndeildar, liðið vera að ganga í gegnum nauðsynlegar breytingar.

,,Leikjum kemur til með að fjölga verulega og þá er alveg ljóst að það var nauðsynlegt að yngja liðið og stækka hópinn. Ég ætla nú ekki að segja að liðið hafi verið komið á endastöð en þetta eru jákvæðar breytingar“.

Talsvert hefur verið ritað um Hall Hansson, færeyskan landsliðsmann, sem er sagður sá launahæsti í deildinni og þá var fullyrt í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu að Björgólfur Thor Björgólfsson, legði félaginu til verulega fjármuni. ,

,Það sjá það allir sem vilja að við talverður fjöldi leikmanna hefur ýmist lagt skóna á hilluna eða haldið á önnur mið. Það þarf að fylla í þær holur sem hafa myndast og bæta í. Hallur kemur með mikla reynslu og gæði og við KR-ingar viljum sjá þannig leikmenn. Þær launatölur sem nefndar hafa verið eru úr lausu lofti gripnar.

Hvað þá að Björgólfur Thor sé að greiða launin hans eða annarra leikmanna. Það á ekki við nein rök að styðjast. Við eigum að góða styrktaraðila, sem hafa staðið við bakið á okkur um árabil. Hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar. Við væntum áframhaldandi samstarfs með okkar bakhjörlum,“ segir Páll enn fremur um launakostnað í kringum færeyska landsliðsfyrirliðann.