Umsjónarmaður stuðningsmannatorgsins í Rotherham staðfesti í samtali við starfsmann Fréttablaðsins í Rotherham að það yrði enginn bjór seldur á stuðningsmannatorginu í dag fyrir leik Íslands og Frakklands í lokaumferð riðlakeppni EM.

Mikil hitabylgja er nú þessa stundina að ganga yfir Bretlandseyjar, viðvaranir hafa verið gefnar út og búist er við því að hitamet gætu fallið.

Í síðustu leikjum hefur sérstakur bjórbíll selt fljótandi veigar a stuðningsmannatorginu en hann ræður ekki við hitastigið í Rotherham í dag. Umsjónarmaðurinn sagði þó að fólk sem þyrsti í áfengar veigar þyrfti hins vegar ekki að hafa áhyggjur það væru nokkrir barir nálægt svæðinu fyrir þá sem vildu komast í öl.

Í samtali við Fréttablaðið fyrir helgi sagði veðurfræðingurinn Þorsteinn V. Jónsson að varhugavert væri að neyta áfengra drykkja í hitabylgju líkt og fer yfir Bretlandseyjar þessa dagana.

,,Menn þorna hratt upp við neyslu á­fengis en kannski erfitt að koma því að hjá fólki sem er á leið á völlinn á mánu­daginn,“ sagði Þor­steinn og bætti við:

,,Fólk þarf að fara var­lega í svona hita. Bera á sig sólar­vörn, passa að drekka vel af vatni, skýla and­litinu með höttum og öðru slíku og halda sig í skugganum.“