Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, var fenginn til að afhenda Björgvini Páli verðlaunin sem maður leiksins eftir átján marka sigur á Barein.

Ísland vann 36-18 sigur á Barein í þriðja leik landsliðsins á HM í handbolta sem fer fram í Munchen þessa dagana.

Björgvin Páll Gústavsson hrökk loksins í gang og varði fimmtán skot af þrjátíu, þar af fjögur víti í átta tilraunum ásamt því að vera með tvær stoðsendingar.

Hann var valinn maður leiksins í leikslok og var Alfreð fenginn til að afhenda Björgvini verðlaunin.

Alfreð leikur með Augsburg í Þýskalandi og því stutt að fara fyrir markahrókinn sem er ásamt liðsfélögum sínum í vetrarfríi frá þýsku deildinni.