Færeyska knattspyrnufélagið KÍ Klaksvík sá sér leik á borði á Twitter í gær og bauð upp á gott grín. Félagið sagðist þá hafa boðið Manchester United sínar bestu rollur í skiptum fyrir Cristiano Ronaldo, leikmann enska félagsins.

Ronaldo vill komast frá Man Utd. Hann hefur verið orðaður við fjölda félaga en það virðist erfitt fyrir hann að finna nýtt félag.

Man Utd segir leikmanninn alls ekki til sölu. Portúgalinn á eitt ár eftir af samningi sínum. Hann sneri aftur til félagsins í fyrra, tólf árum eftir að hann yfirgaf Old Trafford fyrir Real Madrid.

„Við höfum boðið tuttugu bestu kindur okkar í skiptum fyrir Ronaldo. Við bíðum nú eftir skilaboðum frá United,“ segir á Twitter-síðu KÍ.