Ásgerður, leikmaður Vals sem lék á sínum tíma tíu landsleiki og verður í hlutverki sérfræðings hjá RÚV á Evrópumótinu í sumar, segist vera bjartsýn í aðdraganda mótsins.

„Ég er mjög bjartsýn á gott gengi Íslands. Við vorum tiltölulega heppin með riðil þó að þetta séu snúnir andstæðingar og Frakkarnir frábærir. Við eigum að geta unnið bæði Ítali og Belga, sem myndi stilla upp úrslitaleik gegn Frökkum, þannig að ég er bjartsýn á að við förum áfram,“ segir Ásgerður, aðspurð hvort hún sé bjartsýn fyrir komandi verkefni.

„Frakklandsleikurinn gæti orðið að bónusleik. Ég held að það gæti hentað okkur vel að byrja gegn Belgum og Ítölum. Það er góð holning á liðinu og það gefur manni ástæðu til bjartsýni.“

Ásgerður tekur undir að það séu ákveðin spurningarmerki þegar kemur að varnarlínunni. „Hægri bakvarðarstaðan hefur verið spurningarmerki hjá Þorsteini, hann hefur notað fjóra leikmenn þar. Guðný (Árnadóttir) hefur verið í kappi við tímann að ná sér af meiðslunum, mikilvægt að fá hana inn þar. Í miðverðinum tel ég líklegt að hann veðji á Guðrúnu við hlið Glódísar í vörninni en svo er spurning hvað hann gerir í vinstri bakverði. Áslaug hefur spilað vel með Blikum og er að veita Hallberu verðuga samkeppni, sennilega sú fyrsta sem nær því í tíu ár.“

Aðspurð hvort það vanti einhvern örlagavald (e. x-factor) í hópinn segist Áslaug hissa á að Hlín Eiríksdóttir sé ekki í hópnum. „Ég sé svolítið eftir Hlín í þessum hópi, gat verið leikurinn sem myndi reynast örlagavaldur. Amanda er efnileg, hefur lítið spilað, með X-factor, en veit ekki hvað hún fær stórt hlutverk. Svo er Áslaug spennandi leikmaður sem getur leyst af nokkrar stöður.“

Ásgerður á von á því að Spánverjar verði sterkasta lið mótsins en heimakonur komi einnig sterklega til greina. „Spánverjarnir eru með mjög sterkt lið og eru að mínu mati sigurstranglegastar. Svo er ég með blæti fyrir enska landsliðinu, spila á heimavelli og vona að þær fái góðan stuðning. Ef ég ætti að setja pening undir væri það líklegast Spánn.“