Bjarni Ólafur Eiríksson hefur ákveðið að taka sér frí frá fótbolta um tíma en þetta staðfesti Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals,í samtali við 433.is í dag.

Bjarni Ólafur sneri aftur í Valsliðið árið 2013 en hann hefur leikið með Silkeborg í Danmörku og Tromsö í Noregi á atvinnumannaferlinum.

Hann lék fyrsta leik sinn fyrir Val árið 2000 og lék alla leiki í Símadeildinni ári síðar. Alls hefur hann leikið 226 leiki fyrir Val í efstu deild og 315 leiki í öllum keppnum.

Bjarni hefur verið í lykilhlutverki hjá Valsliðinu sem hefur unnið tvo Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla á síðustu árum undir stjórn Ólafs Jóhannessonar.