Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kom í Íþróttavikuna með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut á föstudagskvöldum. Gestur með honum var Hjörvar Hafliðason, doktor Football.
Þeir fóru yfir fréttir vikunnar og ræddu um íslenska landsliðið í handbolta en öll spjót hafa staðið að Guðmundi Guðmundssyni, landsliðsþjálfara eftir að Ísland lauk keppni í 12 sæti. Margir hafa tjáð sína skoðun og er Hjörvar á því að Guðmundur eigi að víkja. Hans tími sé einfaldlega kominn.
„Ég segi það sama og fyrir tveimur árum þegar við áttum hörmulegt HM líka. Hans tími er liðinn. Við vorum heppnir í fyrra þegar það verður skrýtið EM, einhversskonar Covid mót þar sem hálft liðið var frá, og við þurftum að nota allan hópinn og fólk var sátt. Ég held að það sé kominn tími á nýja rödd,“ segir Hjörvar.
Hann bendir þó á að hann muni styðja liðið þó Guðmundur verði áfram á hliðarlínunni. „Gummi er besti landsliðsþjálfari sem við höfum átt. Hann sannar það með árangri sínum en ég held að það sé upplagt að fara með nýjan þjálfara á næsta mót.“
Að mati Benedikts Bóasar þáttastjórnanda er Guðmundur að lenda í orrahríð að hann man ekki annað eins. Bjarni sagðist ekkert hafa mjög sterkar skoðanir á þessu máli. „Ég tek undir með Hjörvari að Guðmundur er besti handboltaþjálfari sem við höfum haft og stutt síðan hann náði frábærum árangri.
Við vorum öll búin að tjakka okkur upp í rosalegar væntingar. Þegar þær bregðast fundum við sökudólginn. En ég meina að við vorum að spjalla fyrir Svíaleikinn og ég hafði enga trú að við myndum vinna þann leik. Ég spáði í lítinn hóp að við myndum tapa með sjö. Enda sáum við það að við áttum ekki mikla möguleika gegn þeim,“ sagði Bjarni.
Hjörvar benti Bjarna á að þetta væri inngróin minnimáttarkennd fyrir Svíagrílunni. „Mig langar þó að hrósa þeim íþróttafréttamönnum sem bjuggu til þessar væntingar. Af því að það er mót í janúar á hverju ári og er orðið fast í lífi manns og maður er ánægður ef við náum tíunda sæti.
Svo var allt í einu farið að spá að við værum að fara verða Heimsmeistarar.“
Benedikt benti á að þetta hefði verið aðeins 18 mínútur sem fóru með mótið fyrir okkur. „Við áttum ekkert erindi í þessi átta liða úrslit. Við sáum hvernig Danir pökkuðu Ungverjum saman. En við eigum marga af bestu leikmönnum heims. Ég hef séð marga leiki með Magdeburg á Viaplay,“ sagði Hjörvar.
Bjarni sagði að það þurfi að búa til einingu og hún muni ná árangri. „Almennt á það við að þetta er stemningsmál. Landsliðið verður að vera vel slípað saman. Allir leikmenn, þjálfarar og allir sem koma að liðinu. Það þarf að búa til einingu og hún mun ná árangri. Ég held að það sé mjög algengt að benda á þjálfarann og segja að hann sé vandamálið.
En ég var ekki hrifinn af því þegar Jose Mourinho var hent frá Manchester United. Það voru leikmenn þar sem voru með allt niður um sig.“
Hjörvar benti þá á að augljósi kosturinn til að taka við liðinu væri Dagur Sigurðsson. „Fólkið vill hann. Það er einhver góður andi yfir honum en ég held alveg áfram að styðja liðið þó Guðmundur verði áfram í brúnni.“
Benedikt benti þá að hann væri búinn að ákveða að fara á EM í Þýskalandi. Hann ætlaði ekki að missa aftur af stuðinu í riðlakeppninni. Skipti þá engu máli hvort Guðmundur væri að stýra liðinu.