Bjarni Mark Antonsson Duffield hefur verið á skotskónum með IK Brage í undanförnum leikjum en liðið er í toppbaráttu sænsku B-deildarinnar í knattspyrnu karla. Bjarni Mark sem leikur sem djúpur miðjumaður hjá liðinu hefur skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum liðsins.

Hann skoraði glæsilegt mark með hjólhestaspyrnu í 2-2 jafntefli IK Brage gegn Trelleborg í síðustu umferð deildarinnar en eftir þau úrslit er liðið í fjórða sæti deildarinnar með 48 stig. IK Brage er með jafn mörg stig og Jönköpings Södra sem situr í þriðja sætinu sem veitir þátttökurétt í umspili um laust sæti í efstu deild og tveimur stigum á eftir Varberg sem er í öðru sæti.

Efstu tvö lið deildarinnar fara beint upp í úrvalsdeildina en Mjällby trónir á toppi deildarinnar með 52 stig. Bjarni Mark segir að ekki hafi endilega verið stefnt að því að fara upp um deild á þessu keppnistímabili þó svo að vitað hafi verið að það væri raunhæfur möguleiki þegar lagt var í stað inn í tímabilið.

„Þetta hefur gengið vel hjá bæði mér og öllu liðinu, sérstaklega eftir haustpásuna. Við stilltum saman strengi í pásunni og ég settist niður með þjálfurum liðsins þar sem við fórum yfir hvað ég hefði verið að gera vel, hvað mætti bæta og hvernig ég gæt sinnt hlutverkinu mínu betur hjá liðinu," segir Bjarni Mark í samtali við Fréttablaðið.

„Ég hef spilað mjög vel eftir pásuna og ég hef aldrei verið í betra líkamlegu formi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég að ég get einbeitt mér að fullu að því að vera knattspyrnumaður. Ég hef æft mjög vel og svo er afar fagmannlega að öllu staðið hjá þessu félagi. Það er mikill strúktúr í kringum allar æfingar og leikur liðsins og einstakra leikmanna greindur á videoi," segir þessi eitilharði miðjumaður.

Mjög vel staðið að öllum málum hjá félaginu

„Þrátt fyrir að ég hafi verið að skora og leggja upp mörk í síðustu leikjum er hlutverki mitt það sama og ég er vanur að spila. Ég er í skítavinnunni sem djúpur miðjumaður en hér þarf ég samt að vera meira inn í spilinu en ég hef áður gert. Það er meira um stutt spil og spil í gegnum línurnar en ég hefur áður tekið þátt í," segir Bjarni en hann hefur skorað fjögur mörk á leiktíðinni og lagt upp önnur fjögur fyrir samherja sína.

„Mér finnst ég hafa bætt mig mikið eftir að ég kom hingað og fyrir utan líkamlega formið finnst mér ég betur spilandi og með mun meiri leikskilning en ég hafði. Ég er betur meðvitaður um staðsetningar og er orðinn betri í skila boltanum frá mér af miðsvæðinu. Mér líður mjög vel hérna, hér er allt til alls og ég er mjög ánægður með þjálfarann sem hefur kennt mér mikið. Ég sé fyrir mér að vera hérna næstu árin og vonandi tekst mér að spila í efstu deild með þessu liði," segir hann.

„Það er mjög vel staðið að öllum málum hjá þessu félagi og allar aðstæður og utanumhald eins og best verður á kosið. Þá er deildin mjög góð og ég tel að ég sé að spila í hærra gæðaflokki en efsta deildin heima er. Það tók mig smá tíma að venjast tempóinu hérna en ég kominn betur inn í hlutina og er að spila betur og betur," segir norðanmaðurinn sem hefur leikið með KA, Fjarðabyggð og Kristianstad á ferli sínum.

„Ég er líka í fyrsta skipti einn fjarri öllum vinum og fjölskyldu og það var svolítið erfitt fyrst um sinn að þurfa að standa á eigin fótum og vera fjarri mínu fólki. Félagið tók hins vegar mjög vel á móti mér og mér fannst ég strax mjög velkominn inn í samfélagið hérna. Þá hef ég eignast góða vini í liðinu og félaginu. Þá á ég góða að sem eru duglegir að heimsækja mig," segir Bjarni Mark um fyrstu mánuðina í IK Brage.

„Fyrir tímabilið var það ekki þannig að það væri stefnt að því að fara upp í ár. Það var hins vegar alveg vitað að við værum með lið sem gæti farið upp og markmiðið var að byggja upp lið sem gæti farið upp á næstu árum. Nú þegar við erum komnir í þessa stöðu ætlum við hins vegar að halda áfram þessu góða gengi og sjá hverju það skilar okkur," segir hann.