Ísland er á leið á Evrópumótið í handbolta karla 11. skipti í röð en farseðilinn var tryggður með öruggum 32-22 sigri á móti Tyrklandi í lokaumferð undankeppninnar í Laugardalshöllinni í gær. Þessi sigur tryggði Íslandi annað sætið í riðli sínum í undankeppninni og þar af leiðandi sæti í lokakeppninni.Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og sigldi svo fram úr tyrkneska liðinu í seinni hálfleik.

Þar munaði mestu um stöðuga og góða markvörslu Viktors Gísla Hallgrímssonar bak við sterka vörn Íslands og frábæra innkomu Bjarka Más Elíssonar sem skoraði 11 mörk. Frammistaða Bjarka Más er ekki síst eftirtektarverð þar sem hann spilaði einungis seinni hálfleikinn.

„Ætli þetta sé ekki bara besti hálfleikur minn með landsliðinu. Þetta byrjaði allt þegar dj-inn setti nýja sumarsmellinn með Ingó Veðurguði og Gumma Tóta á fyrir leikinn. Það kveikti í mér og ég fékk svo að vita það í lok fyrri hálfleiks að ég myndi byrja seinni hálfleikinn. Ég fann það strax að ég myndi hitta á góðan leik og leikur gegn liði eins og Tyrkland er hentar mér vel,“ sagði Bjarki Már í samtali við Fréttablaðið um spilamennsku sína

.„Við náðum að nýta færin vel í þessum leik og fengum fullt af hraðaupphlaupum eftir að hafa staðið sterka vörn. Leikurinn gegn Grikklandi skildi eftir óbragð í munninum og það var gott að ná að kvitta fyrir þann leik og tryggja sætið á EM á öruggan hátt. Þessi leikur verður til þess að við förum léttir í sumarfrí og mætum svo jákvæðir til leiks í næstu verkefni liðsins,“ sagði hann enn fremur.

„Mér fannst varnarleikurinn góður og Viktor Gísli sýndi mikinn stöðugleika yfir allan leikinn í markvörslu sinni. Við náðum svo að nýta færin betur en í Grikklandi þó svo að uppstilltur sóknarleikur hafi verið kaflaskiptur. Ég var sáttur við að sjá hversu vel ungir leikmenn á borð við Teit Örn, Elvar Örn, Ými Örn og Hauk Þrastarson léku í þessum leik og Viktor Gísli bætti svo því við sitt þroskaferli að sýna stöðugleika,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson um leikinn í gær.  

„Liðið fékk mikla gagnrýni á sig fyrir spilamennskuna í Grikklandi en það var ekki tekið með í reikninginn hversu erfitt ferðalagið var í aðdraganda leiksins og hversu erfiðar aðstæður voru þar ytra. Það er auðvelt að sitja einhvers staðar og hrauna yfir liðið. Þetta er ungt lið sem er í góðum farvegi með að fylgja eftir því þriggja ára plani að komast aftur í fremstu röð. Leikmenn liðsins munu misstíga sig á leiðinni. Nú erum við hins vegar komnir á EM og hlutirnir líta bara vel út. Það sem við þurfum helst að huga að til framtíðar er að auka breiddina í hægri skyttunni og bæta línuspilið," segir þjálfarinn um framtíð íslenska liðsins.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði hátt í 20 skot í sigri Íslands gegn Tyrklandi í gær.
Fréttablaðið/Ernir