Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handbolta lék á als oddi fyrir lið sitt Lemgo þegar liðið vann þægilegan 27-19 sigur á Die Eulen Ludwigshafen í þýsku efstu deildinni í handbolta karla í dag.

Bjarki Már skoraði 13 mörk í leiknum og er markahæsti leikmaður deildarinnar með 97 mörk í fyrstu 12 leikjum deildarinnar.

Uwe Gensheimer leikmaður Rhein-Neckar Löwen kemur næstur með 93 mörk og Hans Lindberg sem leikur með Füchse Berlin er þriðji með 89 mörk.

Lemgo þokaði sér frá fallsvæði deildarinnar með þessum sigri en liðið hefur sex stig eftir þennan sigur í 16. sæti. Ludwigshafen er hins vegar með þrjú stig í fallsæti.