Lance Stroll, For­múlu 1 öku­maður Aston Martin hefur nú loks tjáð sig opin­ber­lega um al­var­legt hjól­reiða­slys sem hann lenti í nokkrum vikum fyrir upp­haf For­múlu 1 tíma­bilsins

Það var þann 18. febrúar síðast­liðinn sem Stroll lenti í al­var­legu hjól­reiða­slysi á Spáni. Við frekari skoðun á sjúkra­húsi kom í ljós að hann hefði hlotið tölu­verða á­verka.

„Ég hafði hlotið bein­brot og til­færslu í hægri úln­lið, brot í vinstri úln­lið, lítils háttar brot á vinstri hönd og loks annað brot á stóru tá á hægri fæti,“ skrifar Stroll í færslu á Twitter.

Allt þetta átti sér stað að­eins nokkrum ögum fyrir fyrstu prófanir For­múlu 1 tíma­bilsins.

„Þar sem að tíma­bilið var við það að hefjast, hefði tíma­setningin ekki getað verið verri. Lækna­t­eymi mitt taldi við fyrstu sýn að ég myndi missa af prófunum fyrir tíma­bilið sem og fyrstu keppnis­helgunum.“

Tveimur sólar­hringum eftir slysið, tólf dögum fyrir fyrstu keppni For­múlu 1 tíma­bilsins, gekkst Stroll undir að­gerð á hægri úln­lið. Meiðslin á vinstri hendi, úln­lið og tá voru þess eðlis að ekki þótti ráð­lagt að laga þau með að­gerð heldur þyrfti að fara þar í­halds­samari leiðir til þess að jafna sig á þeim.

Að­gerðin á hægri úln­lið gekk vel og var talið að Stroll gæti jafn­vel náð að vera klár í tæka tíð fyrir aðra keppni tíma­bilsins í Sádi-Arabíu. Allt kapp var lagt á endur­hæfingu í kjöl­farið og voru allar bestu leiðir nýttar til þess.

„Upp­haf­lega náðist árangur, en hann náðist hægt. Ég þurfti mikla hjálp við dag­lega iðju heima fyrir. En með hverjum deginum sem leið fór mér að líða betur.“

Það var síðan á fjórða degi, þegar gipsið var tekið af hægri hendi hann, sem það fóru að glæðast vonir um að Stroll gæti náð fyrstu keppni tíma­bilsins.

„Endur­hæfingin krafðist mikillar vinnu og þraut­seigju af minni hálfu, en þökk sé ó­trú­legu lækna­t­eymi sem og stuðningi fjöl­skyldu og vina náði ég að komast í gegnum þetta.“

Stroll missti af prófunum fyrir tíma­bilið en var mættur aftur á rás­línuna í bíl Aston Martin í fyrstu keppni tíma­bilsins sem fór fram í Bar­ein um síðustu helgi.

Þar náði Stroll, á­samt Aston Martin, frá­bærum árangri. Sjálfur skilaði hann sér í mark í 6. sæti og liðs­fé­lagi hans hjá Aston Martin, Spán­verjinn Fernando Alon­so endaði á verð­launa­palli í 3. sæti.

Mynd­band af bata­ferli Stroll má sjá hér fyrir neðan: