Lance Stroll, Formúlu 1 ökumaður Aston Martin hefur nú loks tjáð sig opinberlega um alvarlegt hjólreiðaslys sem hann lenti í nokkrum vikum fyrir upphaf Formúlu 1 tímabilsins
Það var þann 18. febrúar síðastliðinn sem Stroll lenti í alvarlegu hjólreiðaslysi á Spáni. Við frekari skoðun á sjúkrahúsi kom í ljós að hann hefði hlotið töluverða áverka.
„Ég hafði hlotið beinbrot og tilfærslu í hægri úlnlið, brot í vinstri úlnlið, lítils háttar brot á vinstri hönd og loks annað brot á stóru tá á hægri fæti,“ skrifar Stroll í færslu á Twitter.
Allt þetta átti sér stað aðeins nokkrum ögum fyrir fyrstu prófanir Formúlu 1 tímabilsins.
„Þar sem að tímabilið var við það að hefjast, hefði tímasetningin ekki getað verið verri. Læknateymi mitt taldi við fyrstu sýn að ég myndi missa af prófunum fyrir tímabilið sem og fyrstu keppnishelgunum.“
Tveimur sólarhringum eftir slysið, tólf dögum fyrir fyrstu keppni Formúlu 1 tímabilsins, gekkst Stroll undir aðgerð á hægri úlnlið. Meiðslin á vinstri hendi, úlnlið og tá voru þess eðlis að ekki þótti ráðlagt að laga þau með aðgerð heldur þyrfti að fara þar íhaldssamari leiðir til þess að jafna sig á þeim.
Aðgerðin á hægri úlnlið gekk vel og var talið að Stroll gæti jafnvel náð að vera klár í tæka tíð fyrir aðra keppni tímabilsins í Sádi-Arabíu. Allt kapp var lagt á endurhæfingu í kjölfarið og voru allar bestu leiðir nýttar til þess.
„Upphaflega náðist árangur, en hann náðist hægt. Ég þurfti mikla hjálp við daglega iðju heima fyrir. En með hverjum deginum sem leið fór mér að líða betur.“
Það var síðan á fjórða degi, þegar gipsið var tekið af hægri hendi hann, sem það fóru að glæðast vonir um að Stroll gæti náð fyrstu keppni tímabilsins.
„Endurhæfingin krafðist mikillar vinnu og þrautseigju af minni hálfu, en þökk sé ótrúlegu læknateymi sem og stuðningi fjölskyldu og vina náði ég að komast í gegnum þetta.“
Stroll missti af prófunum fyrir tímabilið en var mættur aftur á ráslínuna í bíl Aston Martin í fyrstu keppni tímabilsins sem fór fram í Barein um síðustu helgi.
Þar náði Stroll, ásamt Aston Martin, frábærum árangri. Sjálfur skilaði hann sér í mark í 6. sæti og liðsfélagi hans hjá Aston Martin, Spánverjinn Fernando Alonso endaði á verðlaunapalli í 3. sæti.
Myndband af bataferli Stroll má sjá hér fyrir neðan:
My journey. Huge thanks for your support over the last couple of weeks pic.twitter.com/0TY7v7p6rY
— Lance Stroll (@lance_stroll) March 7, 2023