Ástæðan fyrir málaferlunum er sú staðreynd að PGA mótaröðin hefur bannað alla kylfinga sem taka þátt í LIV mótinu. Liv mótaröðin mætir mótspyrnu víða en þá sérstaklega vegna þess að mótaröðin er styrkt af Sádi-Ar­ab­íu og borgar upphæðir sem ekki hafa sést í golfi áður.

Fyrrum kylfingurinn, Greg Norman fer fyrir mótaröðinni og í gögnum sem notuð verða í dómsmálinu eru samskipti hans við Sergio Garcia.

Garcia er einn af þeim sem fór yfir til LIV og fær nú ekki að taka þátt í mótum hjá PGA. „Ég vildi vita hvernig allt gengur með deildina, það virðist vera þannig að margir af þeim sem voru spenntir og elska þetta séu að skíta í buxurnar á sér," segir Garcia í skilaboðum.

Garcia segir að menn óttist að PGA mótaröðin muni banna mönnum að taka þátt en Norman segir að það muni aldrei gerast. „Ef þú getur nefnt mér þá sem eru hræddir þá get ég rætt við þá," segir Norman.

Garcia segir frá fundi sem umboðsmenn fóru á með PGA mótaröðinni þar sem þeir hótuðu að banna leikmenn og stóðu svo við. „Þeir geta ekki bannað ykkur í einn dag, hvað þá til lífstíðar," segir Norman í skilaboðunum meðal annars.