Dean Smith knattspyrnustjóri Aston Villa greindi frá því á blaðamannafundi í dag að Birkir Bjarnason hefði náð sér af þeim meiðslum sem urðu til þess að hann missti af leik liðsins gegn Bolton Wanderers á föstudaginn síðasta. 

Birkir varð fyrir álagseymslum á nára og mjöðm í leik liðsins gegn QPR fyrr í þessum mánuði, en hann hefur hrist þau eymsli af sér og verður til taks þegar Aston Villa heimsækir Derby County á laugardaginn.

Birkir hefur spilað níu af fimmtán deildarleikjum Aston Villa á yfirstandandi leiktíð og skorað í þeim leikjum tvö mörk. Aston Villa situr í 14. sæti ensku B-deildarinnar fyrir 17. umferðina sem leikin verður um komandi helgi. 

Birkir og samherjar hans eru fimm stigum frá sæti sem veitir þátttökurétt í umspili um laust sæti í efstu deild á næstu leiktíð. Derby County er hins vegar í fimmta sæti deildarinnar með 28 stig.