Birkir Bjarnason kemst upp að hlið Guðna Bergssonar í 8. sæti yfir flesta landsleiki fyrir karlalandsliðið í dag þegar hann leikur 80. landsleik sinn gegn Albaníu.

Birkir er á sínum stað í byrjunarliði Íslands í dag eftir að hafa skorað eitt marka Íslands í 3-0 sigri á Moldóvu um helgina.

Miðjumaðurinn lék fyrsta leik sinn fyrir A-landsliðið árið 2010 og nálgast menn á borð við Eið Smára Guðjohnsen og Hermann Hreiðarsson í leikjafjölda fyrir landsliðið.

Þá er Birkir 9. markahæsti leikmaður karlalandsliðsins frá upphafi ásamt Tryggva Guðmundssyni og Heiðari Helgussyni með 12 mörk.

Þetta er einnig tímamótaleikur fyrir Hafnfirðingana Emil Hallfreðsson og Gylfa Þór Sigurðsson sem eru að leika sinn 70. leik fyrir A-landsliðið.

Með því jafna þeir Atla Eðvaldsson í fjölda leikja fyrir A-landsliðið í 17. sæti.