Birkir Bjarnason skoraði sitt tíunda mark fyrir íslenska landsliðið þegar það gerði 2-2 jafntefli við Frakkland í vináttulandsleik í Guingamp í gær.

Birkir kom Íslendingum í 1-0 á 31. mínútu. Kári Árnason tvöfaldaði forskotið á 58. mínútu en Frakkar komu til baka á lokakaflanum, skoruðu tvö mörk og náðu jafntefli.

Markið sem Birkir skoraði var fyrsta mark íslenska liðsins undir stjórn Erik Hamrén. Og það var hans tíunda fyrir landsliðið eins og áður sagði.

Birkir er sá fimmtándi sem skorar tíu mörk eða meira fyrir íslenska landsliðið. Með markinu í gær jafnaði hann Helga Sigurðsson og Eyjólf Sverrisson í 11.-13. sæti á listanum yfir markahæstu leikmenn landsliðsins frá upphafi.

Eiður Smári Guðjohnsen er markahæstur með 26 mörk. Þar á eftir kemur Kolbeinn Sigþórsson með 22 mörk og svo Gylfi Þór Sigurðsson með 20 mörk. Ríkharður Jónsson er fjórði á markalistanum en hann skoraði 17 mörk í aðeins 33 landsleikjum á árunum 1947-65.

Birkir lék í gær sinn 73. landsleik. Hann jafnaði þar með Arnór Guðjohnsen á listanum yfir þá sem hafa leikið flesta leiki fyrir íslenska landsliðið. Metið yfir flesta landsleiki er í eigu Rúnars Kristinssonar (104 landsleikir).