Þrátt fyrir að uppskera Íslands í leikjum við Frakkland til þessa sé rýr hefur íslenska karlalandsliðið ekki átt erfitt með að skora gegn hinu firnasterka landsliði Frakklands undanfarin ár. 

Í síðustu fjórum leikjum hefur Íslandi tekist að skora tvívegis í hverjum leik og í síðustu sjö leikjum hefur Íslandi tekist að skora þó að aðeins tveir þeirra hafi endað með jafntefli, aðrir með sigri Frakklands.

Þetta verður fjórtánda viðureign Íslands og Frakklands á knattspyrnuvellinum og skoraði Ísland aðeins eitt mark í fyrstu sex leikjunum. Skagamaðurinn Þórður Jónsson skoraði eina mark Íslands í 1-5 tapi á Laugardalsvelli árið 1957. 

Í hinum fimm leikjunum tókst Íslandi ekki að koma boltanum í net andstæðinganna á sama tíma og Frakkar skoruðu fimmtán mörk.

Síðan þá hafa liðin mæst sjö sinnum og hefur Ísland skorað í þeim öllum. Frægast er mark Ríkharðs Daðasonar í 1-1 jafntefli á Laugardalsvelli árið 1998 þegar Ísland krækti í gott stig gegn nýkrýndum heimsmeisturum Frakklands.

Enginn hefur þó reynst jafn öflugur og Birkir Bjarnason sem hefur skorað í síðustu þremur leikjum gegn Frakklandi. Í þriðja leik liðsins undir stjórn Lars Lagerbäck leiddi Ísland óvænt 2-0 í hálfleik eftir mörk frá Birki og Kolbeini en Frakkar áttu eftir að snúa leiknum sér í hag á lokamínútunum. Var þetta fyrsta mark Birkis fyrir landsliðið. 

Sömu menn voru að verki í átta liða úrslitum Evrópumótsins þar sem Frakkar á heimavelli slógu Ísland úr leik á þjóðarleikvangi sínum í 5-2 sigri í leik sem reyndist síðasti leikur Lagerbäcks sem þjálfari íslenska liðsins.

Birkir var aftur á ferðinni þegar Ísland og Frakkland mættust í æfingaleik síðasta haust þar sem Ísland komst aftur 2-0 yfir en ungstirnið Kylian Mbappé bjargaði Frökkum með tveimur mörkum á síðustu fimm mínútum leiksins. 

Birkir skoraði fyrir helgi ellefta mark sitt fyrir íslenska karlalandsliðið í 75. leiknum. Fyrsta mark hans fyrir landsliðið kom einmitt í æfingarleiknum gegn Frakklandi eins og áður sagði og hafa þrjú af ellefu mörkum hans fyrir landsliðið eða rúmlega 27 prósent komið gegn Frakklandi.