Birkir Bjarnason landsliðsmaður í knattspyrnu er orðaður við ríkjandi Danmerkurmeistara í knattspyrnu FC Köbenhavn og FC Midtjylland sem trónir á toppi deildarinnar eins og sakir standa í danska fjölmiðlinum Berlingske Tidende.

Birkir er án félags eftir að hafa verið leystur undan samningi hjá enska úrvalsdeildarliðinu Aston Villa í sumar. Hann hefur verið orðaður við félög í Ítalíu þar sem hann hefur spilað áður og Tyrklandi síðustu vikurnar.

Nú hefur áhugi á kröftum hans frá Danmörku bæst í hóp þeirra landa sem gætu orðið næsti áfangastaður á ferli Birkis sem hefur leikið í Noregi, Belgíu, Sviss og Englandi á ferli sínum.

Hann spilaði síðustu tvo leiki íslenska liðsins í undankeppni EM 2020 en Birkir skoraði eitt þriggja marka liðsins í 3-0 sigri gegn Moldóvu og lék svo fyrstu 70 mínúturnar rúmar í tapinu gegn Albaníu.