Simone Biles, fim­leika­stjarnan frá Banda­ríkjunum, til­kynnti í gær að hún myndi taka þátt í úr­slitunum í jafn­vægis­slá á Ólympíu­leikunum í dag. Verður það eina keppnin sem Biles tekur þátt í á Ólympíu­leikunum eftir að hún þurfti að hætta keppni eftir einungis eitt á­hald í liða­keppni kvenna í á­halda­fim­leikum í síðustu viku.

Biles til­kynnti eftir að hafa dregið sig úr leik í liða­keppni kvenna í á­halda­fim­leikum að hún væri að glíma við and­leg vanda­mál eftir að hafa talað um það í að­draganda Ólympíu­leikanna að sér fyndist allur heimurinn á herðum sér. Hún var skráð til leiks í fimm greinum en gaf ekki kost á sér í liða­keppni, gólf­æfingum, stökki eða tví­slá.

„Ég veit ekki hvort það er aldurinn. En ég er stressaðri núna þegar ég keppi í fim­­leikum. Ég líka ekki að skemmta mér jafn vel og gerði,“ sagði hin 24 ára gamla Biles á dögunum. Takist henni að landa gulli á jafn­vægis­slá í dag verður hún hand­hafi gull­verð­launa í öllum þeim fimm greinum fim­leika sem keppt er á í kvenna­flokki á Ólympíu­leikunum. Biles vann fern gull­verð­laun á Ólympíu­leikunum í Ríó árið 2016 en fékk brons­verð­laun á jafn­vægis­slánni. Hún hefur unnið þrenn gull­verð­laun á jafn­vægis­­slánni á HM í fim­leikum, þar af síðast þegar keppt var á HM í fim­leikum í Stutt­gart fyrir tveimur árum.