Bandaríska fimleikakonan Simone Biles hefur dregið sig úr keppni í fjölþraut á Ólympíuleikunum sem fram fara í Tókýó þessa dagana en keppt verður í úrslitum í greininni á morgun. Bandaríska fimleikasambandið greindi frá þessu í fréttatilkynningu sinni í morgun.

Biles hætti keppni í liðakeppninni sem haldin var í gær eftir að hafa tekið þátt í einu áhaldi. Hún greindi svo frá því á blaðamannafundi í kjölfarið að andlegt álag hefði valdið því þessi ákvörðun hafi verið tekin.

Þessi 24 ára gamla fimleikakona vann fjölþrautarkeppnina á Ólympíuleikunum í Ríó fyrir fimm árum síðan og Biles mun þar af leiðandi ekki verða fyrsta fimleikakonanan í sögunni til þess að verja titil sinn í greininni.

„Þetta er svo stórt, þetta eru Ólympíu­leikarnir en í lok dags viltu geta gengið ó­studd út úr keppnis­salnum en ekki borin út á sjúkra­börum,“ sagði Biles í viðtölum eftir að hún hætti keppni í gær.

„Ég veit ekki hvort það er aldurinn. En ég er stressaðri núna þegar ég keppi í fim­leikum. Ég líka ekki að skemmta mér jafn vel og gerði,“ sagði Biles enn fremur.

Fram kemur í tilkynningur bandaríska fimleikasambandsins að frekari skoðun lækna hafi leitt til þess að skynsamlegast hafi þótt að Biles myndi draga sig úr keppni í fjölþraut og hún muni nú huga að andlegri heilsu sinni.

Til greina kemur að Biles keppi í úrslitum stökum áhöldum en hún hefur keppnisrétt í úrslitum á öllum áhöldum.