Fimleikastjarnan Simone Biles segist ekki vera búin að ákveða hvort að hún gefi kost á sér á Ólympíuleikunum í París.

Biles sem er sigursælasta fimleikakona frá upphafi og er talin ein besta fimleikakona sögunnar dró sig úr keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó á síðasta ári til að hlúa að andlegri heilsu sinni.

Í aðdraganda Ólympíuleikanna í Tókýó hafði Biles orð á því að þetta yrðu líklegast hennar síðustu Ólympíuleikar.

Hún kvaðst ekki vera búin að ákveða framhaldið í samtali við spjallþáttarstjórnandann James Corden í vikunni.

„Eins og staðan er núna er ég í endurheimt, bæði andlega og líkamlega. Ég verð í París á Ólympíuleikunum en ég er ekki viss hvort að það verði í hlutverki þátttakenda eða áhorfenda. Það kemur í ljós,“ var meðal þess sem Biles talaði um í þlttinum The Late Late Show with James Corden í vikunni.