Sigur­sælasta fim­leika­kona heims, Simone Biles, sneri aftur til keppni á Ólympíu­leikunum í Tókýó í dag, en eins og flestum ætti að vera kunnugt hætti Biles keppni í liða­keppni kvenna í síðustu viku vegna and­legs á­lags. Hún dró sig einnig úr keppni í úr­slitum í fjöl­þraut, gólfi og stökki til að ein­beita sér að and­legri heilsu sinni en á­kvað ó­vænt að keppa á jafn­vægis­slá í dag.

Jafn­vægis­sláin hefur ekki verið sterkasta grein Biles í gegnum árin en hún er engu að síður þre­faldur heims­meistari á slá sem segir allt um gæði hennar á hinum á­höldunum.

Biles byrjaði æfingar sínar af miklu öryggi er hún negldi þre­faldan píróett strax í upphafi, eða úlfa-snúning eins Kaninn kallar snúninginn svo skemmtilega.

Biles sleppti skrúfunni í afstökkinu

Biles sýndi úr hverju hún er gerð og fram­kvæmdi æfingar sínar af miklu öryggi. Hún endaði æfinguna sína á flikki beint í tvö­falt aftur­á­bak heljar­stökk vinklað og tók pínu­lítið hopp við lendingu. Það heyrðist vel í þeim fáu á­horf­endum sem máttu vera í salnum þegar Biles hafði lokið við sínar æfingar.

Það vakti hins vegar athygli að Biles gerði ekki sitt venjulega afstökk sem er tvöfalt heljarstökk með tvöfaldri skrúfu af sláni. Biles er sú eina í heiminum sem getur framkvæmt æfinguna en enginn hefur leikið hana eftir enn sem komið er. Skrúfur og snúningar hafa verið að angra Biles á leikunum en hún hefur átt erfitt með finna sig í loftinu og má ætla að þess vegna hafi hún sleppt skrúfunum.

Það sýnir í raun hversu ótrúleg Biles er að hún getur þá bara hent sér í annað heimsklassa afstökk sem hún á til í æfingatöskunni.

Einbeitt Biles horfir á slána er hún lendir úr flikki án handa.
Ljósmynd/AFP

Biles fékk 14,00 stig fyrir sínar æfingar sem þykir mjög gott. Það var samt ljóst að hún væri ekki að fara taka gullið en hin kín­verska Tang Xiang var þegar búin að fá 14,233 stig og sat í fyrsta sæti.

Ólympíu­meistarinn í fjöl­þraut kvenna, hin bandaríska Sunisa Lee, var næst á slána og byrjaði virki­lega vel en hún missti jafn­vægið eftir flikk án handa sem er dýr­keypt.

Með ó­trú­legum hætti hélt hún sér hins vegar á sláni sem er alltaf gott fyrir sjálfs­traustið og gerði Lee létt grín af mis­tökunum á Twitter eftir mótið.

Mistökin kostuðu hins vegar sitt og fékk Lee 13,866 stig fyrir sínar æfingar og náði því ekki á pall.

Sunisa Lee náði ekki á pall í úrslitum á jafnvægisláni í dag.
Ljósmynd/AFP

Chenchen síðasti keppandi dagsins

Biles sat í öðru sæti þegar hin magnaða Guan Chenchen, frá Kína steig síðust upp á jafnvægisslána. Chenchen hefur verið í miklu uppáhaldi hjá bæði keppendum og fimleikaaðdáendum síðasta ár en þessi 16 ára fimleikastelpa er í sérflokki á jafnvægisslá um þessar mundir. Hún steig upp á slána með það álag á herðunum að ef hún myndi klára æfinguna sína yrði hún Ólympíumeistari

Chenchen sýndi gæðin strax í annarri stökkseríu er hún gerði arabastökk beint í heljarstökk afturábak með beinum líkama í ótrúlegri hæð. Hér er ágætt að hafa í huga að jafnvægisláin sem stelpurnar stökkva á er einungis 10 cm á breidd.

Hin 16 ára Chenchen frá Kína bar af á jafnvægissláni í dag og tók heim gullið.
Ljósmynd/AFP

„Ég elska hana svo mikið“

Það vakti athygli að heyra mátti Simone Biles klappa og hvetja kínversku stúlkuna áfram í gegnum alla æfinguna. Það heyrðist skilmerkilega í Biles kalla „þú getur þetta! “ þegar hún færði sig með ballethreyfingum að enda jafnvægislánnar.

Þegar Chenchen stóð kyrr um stund á sláni, sem er frádráttarbært, rétt fyrir afstökkið heyrðist aftur í Biles öskra „Come on! You got it!“ eða „Koma svo! Þú getur þetta.“

Chenchen negldi fallegt afstökk og það var enginn vafi á því hver væri að fara taka gullið heim. Chenchen fór upp í fyrsta sætið og Biles færðist úr öðru í það þriðja.

Svo virðist sem hin unga Chenchen sé í miklu uppáhaldi hjá bandarísku stúlkunum en nýkrýndur Ólympíumeistarar í fjölþraut, Lee hvatti einnig Chenchen áfram en hún sást ekki í mynd.

Lee deildi sjálf myndbandi á Twitter af sér að hvetja kínverska ungstirnið áfram og skrifaði „Ég elska hana svo mikið.“

Biles sést neðst í vinstra horninu á myndbandinu hvetja Chenchen áfram

Það var einnig skemmtilegt að sjá að Lee og Biles voru mættar fyrstar til að faðma Chenchen eftir æfingu sína á slá.

Keppni kvenna í áhaldafimleikum hefur í gegnum tíðina verið afar hörð og fylgdist heimsbyggðin með því á Kalda stríðs árunum þegar sovéskar og bandarískar fimleikastúlkur litu varla við hvorri annarri.

Sú andúð virðist heyra sögunni til og var allt annað andrúmsloft í höllinni í dag.

Úrslit á jafnvægisslá kvenna:

  1. Guan Chenchen 14.663 stig.
  2. Tang Xijing 14.233 stig.
  3. Simone Biles 14.00 stig.
Verðlaunahafar á jafnvægissláni í dag.
Ljósmynd/AFP