Selfoss og KR leiða saman hesta sína í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu síðdegis í dag. Það verður Egill Arnar Sigurþórsson sem flautar til leiks á Laugardalsvellinum klukkan 17.00. Þetta verður í fyrsta skipti sem Egill Arnar dæmir bikarúrslitaleik í meistaraflokki.

KR býr að ríkari hefð hvað bikarmeistaratitla varðar en félagið freistar þess að vinna sinn fimmta bikarmeistaratitil á meðan Selfoss hefur tvisvar sinnum farið í bikarúrslit og tapaði í bæði skiptin.

KR vann bikarkeppnina síðast árið 2008 en þá skoraði Hólmfríður Magnúsdóttir núverandi leikmaður Selfoss þrjú marka KR í 4-0 sigri gegn Val. Selfoss laut hins vegar í lægra haldi fyrir Stjörnunni í bikarúrslitum árin 2014 og 2015.

Selfoss að reyna í þriðja sinn

Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, kom inn á sem varamaður í fyrra tapinu en var í byrjunarliðinu í seinna tapinu. Hún segir það hafa verið á markmiðalista sínum fyrir sumarið að fara í bikarúrslit en Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari liðsins, hafi skammað hana fyrir að ganga ekki nógu langt í markmiðasetningu sinni.

„Góður árangur okkar í sumar hefur alls ekki komið okkur á óvast og það var til að mynda á markmiðalistanum mínum að fara alla leið í bikarúrslit. Alfreð Elías var hins vegar ekki ánægður með það og vildi að ég breytti því í að vinna titilinn. Það er vissulega rétt hjá honum að það er bjánalegt að stefna ekki á sigur þegar þú ert komin svona langt,“ segir Anna María um sumarið á Selfossi.

„Það er mikil stemming fyrir þessum leik á Selfossi og það hjálpar okkur mikið hvað bæjarbúar standa þétt við bakið á okkur. Við erum með mikið breytt lið frá því að við vorum síðast í úrslitum og aðrir lykilleikmenn en voru þá. Við erum staðráðnar í að brjóta blað í sögu félagsins og vinna okkar fyrsta bikarmeistaratitil í þessum leik.

Þetta eru jöfn lið og KR-ingar eru með betra lið en staða þeirra í deildinni gefur til kynna. Við verðum bara að fara eftir þeim gildum sem hafa komið okkur í þennan leik og eiga okkar besta leik til þess að takast það sem við ætlum okkur,“ segir hún um komandi verkefni.

Skemmtilegasti leikur ársins

Lilja Dögg Valþórsdóttir, varnarmaður KR sem hefur orðið bikarmeistari með KR, Val og Breiðabliki, segir það alltaf jafn skemmtilegt að undirbúa sig fyrir bikarúrslitaleik og leikdagurinn í bikarúrslitum sé engum líkur.

„Þetta er klárlega skemmtilegasti leikur sem ég spila og það verður ekkert þreytt að fá að taka þátt í honum. Undirbúningur okkar hefur og mun verða frekar hefðbundinn utan þess að við hentum okkur í rappgírinn og tökum upp pepplag fyrr í vikunni. Það er ekki eitthvað sem ég sá fyrir mér að ég myndi gera að vera í rappmyndbandi en hvað gerum við ekki fyrir boltann?“ segir Lilja Dögg um stemminguna í Vesturbænum.

„Spilamennska okkar hefur verið sveiflukennd í sumar en mér finnst við hafa bætt okkur í síðustu leikjum okkar og við mætum fullar sjálfstrausts í þennan leik. Þetta verður jafn leikur og það mun bara ráðast á því hvort liðið nær að sýna sitt rétta andlit hvorum megin bikarinn endar.

Þetta eru lið sem spila ólíkan leikstíl og ég á von á skemmtilegum leik. Vonandi endar hann á jákvæðan hátt og allt of langri bið KR-liðsins eftir bikarmeistaratitli ljúki,“ segir þessi þrautreyndi varnarmaður um leikinn.