Erik ten Hag, knatt­spyrnu­stjóri Manchester United undir­býr nú lið sitt fyrir komandi átök næsta tíma­bil sem verður hans fyrsta við stjórn­völinn hjá fé­laginu. Ten Hag vill að fé­lagið hafi hraðar hendur og landi samningum við varnar­manninn Lis­andro Martinez sem og fé­lag hans Ajax.

Frá þessu greinir sér­fræðingurinn Fabrizio Roma­no í færslu á Twitter en Manchester United er ekki eina fé­lagið á eftir Martinez. Keppi­nautarnir í Arsenal eru það líka.

Martinez vill sjálfur losna frá Ajax og er talið að Manchester United sé það fé­lag sem Martinez vilji helst fara í.

,,Ten Hag vill að Manchester United flýti sér í samnings­gerð fyrir Martinez. Leik­maðurinn vill fara frá Ajax, það er alveg ljóst. Ten Hag vill fá Martinez inn um leið og Manchester united eftir inn­siglað fé­lags­skipti Mala­cia og Erik­sen," skrifar Roma­no í færslu á Twitter.

Manchester United er ná­lægt því að ganga frá samningum við hinn hollenska Tyrell Mala­cia og þá hafa borist fréttir af því að Christian Erik­sen hafi náð munn­legu sam­komu­lagi við for­ráða­menn fé­lagsins. Hann getur komið á frjálsri sölu.