Rudy Gobert, leik­maður Utah Jazz í banda­rísku NBA-deildinni í körfu­bolta, hefur beðist af­sökunar á ó­smekk­legu gríni á blaða­manna­fundi á mánu­dag.

CO­VID-19 kóróna­veiran hefur dreift sér um heims­byggðina að undanförnu, en á blaða­manna­fundinum á mánu­dag lék Gobert sér að því að snerta alla hljóð­nema og upp­töku­tæki sem frétta­menn höfðu skilið eftir á borðinu fyrir framan hann. Átti þetta að vera ein­hvers konar grín vegna út­breiðslu veirunnar.

Það sem vekur einna mesta at­hygli er að að­eins tveimur dögum síðar greindist Gobert sjálfur með veiruna al­ræmdu.

Í færslu sem Gobert birti á Insta­gram í gær­kvöldi baðst hann af­sökunar á gjörðum sínum. Beindi hann af­sökunar­beiðni sinni sér­stak­lega að þeim sem hann setti í mögu­lega hættu. Hann segist ekki hafa haft hug­mynd um að hann væri hugsan­lega smitaður á um­ræddum blaða­manna­fundi.

„Ég vona að mín reynsla verði öðrum víti til varnaðar því það þurfa allir að taka þessum far­aldri al­var­lega.“

Sem kunnugt er á­kváðu for­svars­menn NBA-deildarinnar að fresta tíma­bilinu ó­tíma­bundið vegna út­breiðslu veirunnar.