Simon Kjær, leikmaður danska landsliðsins í knattspyrnu biðlar til dönsku þjóðarinnar að sína liðinu sama stuðning eftir HM líkt og raunin var fyrir mótið. Danir féllu úr leik á HM í Katar í gær eftir tap gegn Ástralíu. Spilamennska liðsins var langt undir væntingum og voru landsliðsmenn látnir heyra það í dönsku pressunni í gærkvöldi.
Danir voru í riðli með Frökkum, Áströlum og Túnis og voru væntingar gerðar til þess að liðið færi nokkuð auðveldlega upp úr riðlinum. Töp gegn Frökkum og Ástralíu sem og jafntefli gegn Túnis sáu hins vegar til þess að Danir enduðu í neðsta sæti riðilsins.
Kjær segist vonast til þess að danska þjóðin muni áfram standa við bakið á landsliðinu þrátt fyrir að liðið standi í stormi núna. Hann biðlar til þjóðarinnar.
,,Ég vona að þið getið gert greinarmun á því sem við reynum að ná fram sem lið og sem einstaklingar. Við erum jafn vonsviknir og þið með niðurstöðuna," sagði Kjær í viðtali í morgun.
Niðurstaðan á HM breyti því ekki hverjir leikmenn danska landsliðsins eru í raun og veru, breytir því ekki hverju þeir vilja áorka saman sem lið.
,,Við höfum talað um að vinna sigra saman og það hefur ekki breyst."