Stjórn Íþróttabandalags Akureyrar og Skautafélags Akureyrar sendu í dag frá sér afsökunarbeiðni þar sem Emilía Rós Ómarsdóttir er beðin afsökunar á ónærgætinni nálgun og viðbrögðum eftir hún hafði stigið fram árið 2018 og greint frá áreiti af hálfu þjálfara síns.

Á þeim tíma gáfu samböndin út yfirlýsingu þar sem sagði að engar sannanir eða merki voru um að þjálfari listskautadeildarinnar hafi brotið siðareglur eða mismunað iðkendum. „Það var því miður ekki raunin og þegar málið var skoðað nánar þá kom í ljós að hann áreitti Emilíu á óviðeigandi hátt. Fyrir það var hann áminntur og hætti hann sjálfur sinni þjálfun hjá félaginu stuttu seinna," segir í sameiginlegri yfirlýsingu ÍBA og SA.

Emilía streig fram og greindi frá áreitinu árið 2019 í viðtali við Fréttablaðið og sagði frá því hvernig þáverandi þjálfari hennar, sem byrjaði á því að áreita hana, hafi með öllu snúist gegn henni og lagt hana í einelti. Emilía er uppalin á Akureyri en flutti til Reykjavíkur árið 2018 eftir að hafa reynt að sporna við kynferðislegri áreitni þjálfara síns hjá Skautafélagi Akureyrar og viðurkenndi þá að henni finnist erfitt að heimsækja heimabæ sinn. Hún fékk ekki stuðning frá Skautafélagi Akureyrar á sínum tíma.

,,Með faglegri viðbrögðum hefði verið hægt að draga úr sársauka og þjáningu þeirra sem að málinu komu og auðvelda lausn máls," segir í yfirlýsingu ÍBA og SA. „Þrátt fyrir að á þeim tíma er málið kom upp væru ekki til verkferlar sem auðvelt var að styðjast við og fylgja, þá breytir það ekki því að það er alltaf á ábyrgð stjórnarfólks í íþróttahreyfingunni að leysa mál með þeim að hætti að þau valdi sem minnstri vanlíðan þeirra sem misrétti eru beittir."

Segjast samböndin hafa dregið af þessu lærdóm „auk þess sem íþróttahreyfingin öll hefur sett sér betri reglur og verkferla, m.a. með stofnun embættis samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Við heitum því að fylgja þeim leiðbeiningum og þeim línum sem nú hafa verið lagðar í þeim vandasömu málum sem upp geta komið innan íþróttahreyfingarinnar, með það að leiðarljósi að öllum líði sem best og geti stundað sínar íþróttir í öruggu umhverfi."

Byrjaði á saklausan hátt

Í viðtali við Fréttablaðið árið 2019 segir Emilía Rós að þjálfarinn, búlgarskur maður sem kom hingað til lands frá Hollandi hafi komið vel fyrir í fyrstu. Það hafði verið erfitt andrúmsloft í Skautafélagi Akureyrar um tíma og því tóku honum allir fagnandi í fyrstu. Hún lýsti samskiptum sínum við manninn í æfingabúðum sem farið var í Svíþjóð árið 2017.

„Þetta byrjaði á saklausan hátt, hann sendi mér skilaboð á Face­book og byrjaði oft spjallið á því að tala um æfingaprógrammið en svo færði hann sig yfir í að bjóða mér út. Hann byrjaði að hringja í mig líka og fljótlega vatt þetta upp á sig og hann fór að senda mér skilaboð á öllum tíma sólarhringsins. Mér fannst óþægilegt hvernig hann talaði við mig og athugasemdir um líkama minn og fegurð vöktu með mér ótta og óþægindatilfinningu.“

Emilía er uppalin á Akureyri en flutti til Reykjavíkur árið 2018 eftir að hafa reynt að sporna við kynferðislegri áreitni þjálfara síns hjá Skautafélagi Akureyrar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þegar heim til Íslands var komið hélt áreitnin áfram. Hann bauð henni í bíó og í göngutúra. Vildi fá hana í heimsóknir heim til sín og lagði til að þau færu út að borða á afviknum stað fyrir utan bæjarmörkin þar sem þau gætu fengið frið. Hann gaf henni konfekt í hjartalaga öskju, skartgripi, ilmvatn og fleiri gjafir í hennar óþökk og Emilía leitaði til foreldra sinna eftir aðstoð.

Viðtalið við Emilíu Rós frá árinu 2019 má lesa í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan. Hér að neðan má sjá fleiri fréttir um málið.