Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Ronaldo tilkynnti í vikunni að von væri á heimildarmynd um feril hans sem knattspyrnumann á streymisveituna DAZN í næsta mánuði.

Ronaldo var um árabil einn besti leikmaður heims og er af mörgum talinn einn af bestu framherjum allra tíma. Hann var aðeins átján ára þegar hann var keyptur til PSV í sömu viku og Eiður Smári Guðjohnsen.

Brasilíski framherjinn varð dýrasti knattspyrnumaður heims þegar Börsungar keyptu Ronaldo frá PSV og aftur ári seinna þegar Inter keypti Ronaldo frá spænska liðinu.

Hann var seinna keyptur til Real Madrid og AC Milan en hann varð tvisvar spænskur meistari með Real Madrid. Ronaldo átti betra gengi að fagna með brasilíska landsliðinu þar sem hann varð tvisvar Heimsmeistari.

Ronaldo var þrisvar kosinn besti leikmaður heims af FIFA og hlaut tvisvar Ballon d'Or verðlaunin, þau fyrri aðeins 21 ára gamall.