Fótbolti

Betra í tapi fyrir bronsliðinu

Einstaklingsmistök voru íslenska landsliðinu dýr í 0-3 tapi fyrir bronsliði Belgíu frá HM í sumar. Ísland byrjaði leikinn af krafti en tvö mörk á tveimur mínútum gerðu út um leikinn og stýrðu Belgar honum eftir það.

Vincent Kompany hreinsar frá undir pressu frá Jóni Daða Böðvarssyni. Fréttablaðið/Anton

Þrátt fyrir að hafa tapað 0-3 á heimavelli í gær og illa hafi gengið að skapa góð marktækifæri var mun meira hægt að taka jákvætt úr leiknum gegn Belgíu heldur en gegn Sviss um helgina. Í fótbolta er spurt um úrslit og staðan er svört eftir tvo leiki, núll stig og með markatölu upp á níu mörk í mínus en það voru þó kaflar í gær þar sem íslenska liðið stóð í hinu ógnarsterka bronsliði frá HM í sumar, Belgíu. 

Erik Hamrén, þjálfari landsliðsins, gerði þrjár breytingar til að reyna að þétta raðirnar á miðjunni, Emil Hallfreðsson, Hörður Björgvin Magnússon og Rúnar Már Sigurjónsson komu inn fyrir Rúrik, Björn Bergmann og Guðlaug Victor. Framan af virtist sú ákvörðun vera að bera ávöxt, liðið var mun þéttara og líkara því sem Ísland hefur sýnt undanfarin ár en svo komu tvær mínútur sem áttu eftir að ráða úrslitum.

Sverrir Ingi Ingason reynir að halda aftur af Romelu Lukaku. Fréttablaðið/Anton

Romelu Lukaku fékk vítaspyrnu eftir að Sverrir Ingi braut á honum innan vítateigs og fór Eden Hazard á punktinn. Kom hann Belgum yfir og voru stuðningsmennirnir enn að fagna þegar Lukaku komst sjálfur á blað. Aftur voru það augnabliks mistök í vörn Íslands sem Belgar nýttu sér og skoraði Lukaku af stuttu færi í annarri tilraun. Eftir það settust Belgar aftar á völlinn og stýrðu leiknum í rólegheitunum en voru skeinuhættir í skyndisóknum, upp úr einni slíkri stuttu fyrir leikslok kom smiðshöggið. Aftur var það Lukaku, nú eftir sendingu frá Dries Mertens sem vann boltann af Gylfa Þór Sigurðssyni og sýndi Lukaku lipra takta þegar hann kláraði færið og þar með leikinn.

Heilt yfir var spilamennskan mun betri en gegn Sviss þrátt fyrir að leikið væri gegn betri mótherja og virtist Erik Hamrén vera nokkuð sáttur. 

Erik Hamrén þakkar fyrir stuðninginn eftir leik. Fréttablaðið/Anton

„Þetta var fín frammistaða af okkar hálfu þó að við töpuðum leiknum og nauðsynleg eftir útreiðina sem við fengum í Sviss. Þrátt fyrir tapið þá tökum við heilmikið úr þessum leik, við unnum vel í okkar málum og lékum heilt yfir vel í dag gegn einu besta liði heims,“ sagði Erik sem bar greinilega mikla virðingu fyrir belgíska liðinu.

„Þeir eru með frábært lið og í svona leikjum þurfum við að spila einfaldan en áhrifaríkan fótbolta þótt það hafi ekki skilað stigum í kvöld. Við reyndum að vera skynsamir og tilbúnir til að verjast því þegar þeir sóttu hratt eftir föst leikatriði hjá okkur. Þeir eru með eitt besta skyndisóknarlið heims sem þrífst á einstaklingsmistökum, í síðasta leik þeirra komu þrjú mörk af fjórum eftir slík mistök.“

Roberto Martinez, þjálfari Belga, hrósaði Íslandi eftir leik.

„Fyrstu fimmtán mínútur leiksins stýrði Ísland umferðinni en okkur tókst að leysa það vel og fengum tvö mörk sem gerðu útslagið. Ísland var fram að því að leika mjög vel og var betri aðilinn.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fótbolti

Felix tryggði íslenska liðinu jafntefli

Fótbolti

Svava og Þórdís til Svíþjóðar

Fótbolti

Jákvæð atriði þrátt fyrir tap

Auglýsing

Nýjast

Þrír sigrar í röð hjá Stjörnunni

Valur krækti í tvo öflulega leikmenn

Þungur róður hjá Selfossi

Valur fór ansi illa með Hauka

Fínt framan af hjá íslenska liðinu

Nokkrir góðir kaflar dugðu ÍBV til sigurs

Auglýsing