Búið er að tilkynna hvaða tíu kylfingar taka þátt í góðgerðarmótinu Einvígið á Nesinu í ár og er um að ræða alla bestu kylfinga landsins.

Um er að ræða árlegt styrktarmót sem fer fram í 23. skiptið um helgina. Leikið er í þágu Barnaspítala hringsins.

Keppnin fer fram með breyttu sniði í ár og er aðeins keppt í einvígi (e. shoot-out) en ekki höggleik og síðan einvígi.

Atvinnukylfingarnir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Axel Bóasson, Birgir Leifur Hafþórsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús mæta öll til leiks um helgina.

Auk þeirra eru Björgvin Sigurbergsson, fjórfaldur Íslandsmeistari, Nökkvi Gunnarsson, klúbbmeistari NK, Ólafur Björn Loftsson sem lék lengst af fyrir hönd NK og Ragnhildur Sigurðardóttir, fjórfaldur Íslandsmeistari og ríkjandi meistari á Nesinu.