Kristófer Acox, leikmaður KR, er framlagshæsti íslenski leikmaður Domino's deildar karla á þessu tímabili.

Framlag, eða PER, er reiknað með því að taka saman allt það sem leikmaður gerir vel og draga frá það sem illa er gert (misheppnuð skot, tapaðir boltar o.s.frv.).

Bandaríkjamennirnir Urald King, Terrell Vinson og Ryan Taylor raða sér í efstu þrjú sætin á listanum yfir framlagshæstu leikmenn Domino's deildarinnar. Kristófer er í 4. sæti og landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson í því fimmta.

Hér fyrir neðan má sjá 10 framlagshæstu Íslendingana í Domino's deild karla í vetur.

KR-ingurinn kraftmikli er með 24,1 í framlag að meðaltali í leik á sínu fyrsta heila tímabili í Domino's deildinni síðan 2012-13 og er framlagshæsti Íslendingurinn. Kristófer er með 17,4 stig, 9,3 fráköst, 1,6 stoðsendingar, 2,5 stolna bolta og 1,8 varin skot að meðaltali í leik. Skotnýtingin inni í teig er 61,4%.

Landsliðsfyrirliðinn hefur verið besti leikmaður Stjörnunnar í vetur og er næstframlagshæsti Íslendingurinn í Domino's deildinni. Hlynur er með 24,0 í framlag að meðaltali í leik. Hann er með 15,0 stig, 12,6 fráköst og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann er næstfrákastahæsti leikmaður deildarinnar og í 7. sæti á listanum yfir stoðsendingahæstu leikmenn hennar.

Kári hefur verið frábær í toppliði Hauka eftir að hann sneri aftur heim eftir dvöl í Drexel háskólanum vestanhafs. Hann er með 20,1 í framlag að meðaltali í leik. Kári er með 19,2 stig, 4,3 fráköst, 5,3 stoðsendingar og 1,4 stolna bolta að meðaltali í leik. Kári er með 63% skotnýtingu inni í teig og í 5. sæti á listanum yfir stoðsendingahæstu leikmenn deildarinnar.

Ísafjarðartröllið sneri aftur til Grindavíkur í sumar eftir nokkurra ára dvöl í atvinnumennsku erlendis. Sigurður er með 18,8 í framlag að meðaltali í leik. Hann er með 12,1 stig, 8,7 fráköst, 2,6 stoðsendingar og 1,6 varin skot að meðaltali í leik. Sigurður er með 58,3% skotnýtingu inni í teignum.

Leikstjórnandinn snjalli er í stöðugri framför og er herforinginn í sterku liði ÍR. Matthías er með 17,9 í framlag að meðaltali í leik. Hann er með 17,8 stig, 5,6 fráköst, 5,9 stoðsendingar og 1,6 stolna bolta að meðaltali í leik. Matthías er fjórði stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar.

Eftir að hafa verið í fallbaráttu með Skallagrími á síðasta tímabili er Arnar lykilmaður í sterku liði Tindastóls sem er í toppbaráttu í Domino's deildarinnar og nýkrýndir bikarmeistarar. Hann er með 17,9 í framlag að meðaltali í leik. Arnar er með 19,4 stig, 4,5 fráköst, 3,2 stoðsendingar og 2,5 stolna bolta að meðaltali í leik. Hann er stigahæsti Íslendingurinn í deildinni.

Pétur og Arnar mynda eitt besta, ef ekki besta, bakvarðapar Domino's deildarinnar. Pétur er með 17,8 í framlag að meðaltali í leik. Hann er með 14,5 stig, 5,3 fráköst, 6,5 stoðsendingar og 2,1 stolinn bolta að meðaltali í leik. Pétur er þriðji stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar.

Miðherjinn reynslumikli hefur staðið fyrir sínu þrátt fyrir slakt gengi Hattar í vetur. Mirko er með 17,1 í framlag að meðaltali í leik. Hann er með 15,1 stig, 9,7 fráköst og 2,0 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann er sjötti frákastahæsti leikmaður deildarinnar. Og Mirko er meira að segja kominn með aðdáendasíðu á Facebook.

Tímabilið í ár er eitt það besta á ferli Finns Atla sem er mikilvægur hlekkur í Haukakeðjunni. Hann er með 16,3 í framlag að meðaltali í leik. Finnur Atli er með 10,1 stig, 7,5 fráköst og 3,0 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann er með 41,4% nýtingu í þriggja stiga skotum.

Grindvíkingurinn hefur verið traustur að vanda í vetur þótt liðinu hafi ekki gengið sem best. Ólafur er með 15,9 í framlag að meðaltali í leik. Hann er með 12,9 stig, 6,3 fráköst, 2,1 stoðsendingar og 1,9 stolna bolta að meðaltali í leik.