Aron Guðmundsson
Föstudagur 11. mars 2022
23.00 GMT

Gunnar er fjölskyldumaður, faðir tveggja barna og hefur það fyrir atvinnu að keppa í blönduðum bardagalistum, það er það sem hann kann best og því hafa árin í skugga kórónu­veirufaraldursins haft í för með sér töluverðar áskoranir.

„Ég hugsa að þessi tvö ár hafi verið sambærileg hjá flestum atvinnumönnum í íþróttum. Þetta eru þessi Covid-ár sem bara einhvern veginn hurfu frá okkur. Það komu upp tvö tækifæri á þessum árum þar sem að ég átti að fara berjast en í bæði skiptin var bardagakvöldinu frestað vegna Covid.“

Miðlar reynslu sinni

Reynsla Gunnars hefur verið raun margra einstaklinga í mismunandi atvinnugreinum þar sem tækifærin til þess að stunda það sem færir björg í búið hafa verið af skornum skammti. En í gegnum krefjandi tíma má einnig finna tækifæri til þess að beina orkunni í annan farveg.

„Þetta hefur verið langdregið ástand en á þessum tíma náði ég líka að aðlaga mig að breyttum aðstæðum. Ég tók þá stefnu að fara að þjálfa meira, eitthvað sem ég hafði prófað áður en aldrei getað helgað tíma mínum að fullu. Í þjálfuninni fann ég ákveðinn pall fyrir mig og þess á milli var maður náttúrulega bara heima hjá eins og flest allir. Mér finnst þessi tími samt hafa gert mér kleift að einbeita mér að öðru, hlutum sem ég fann mig í að lokum.“

Gunnar segir þjálfarann alltaf hafa blundað í sér. Hann er brautryðjandi Íslendinga í sinni iðju, hefur náð hvað lengst í henni og býr því yfir ótrúlega mikilli reynslu og fróðleik frá sínum ferli sem atvinnumaður.

„Ég hef mjög gaman af því að þjálfa aðra iðkendur og miðla minni reynslu, það er eitthvað sem ég fæ mikið út úr og ég finn alveg fyrir því að þarna var einhver þörf hjá mér sem ég gat uppfyllt.“

Á þessari stundu er Gunnar hins vegar fyrst og fremst atvinnumaður í íþróttum. Spurður að því hvort þessi kórónuveirutími hafi ekki verið erfiður þar sem ekki var hægt að æfa og keppa eins og venjan hafði verið, svarar Gunnar því játandi.

„Það hefur verið erfitt fyrir mig að halda dampi í því sem ég er að gera og ná inn almennilegum æfingum. Yfirleitt hef ég fengið aðra bardagamenn hingað heim til þess að aðstoða mig við æfingar og undirbúning og svo hef ég sjálfur á þessum árum sem bardagakappi einnig reynt að æfa fyrir utan landssteinana og nýta mér þau tól og tæki sem ég hef þar. Það hefur reynst erfitt undanfarin tvö ár.“


Maður elskar börnin sín meira en allt í lífinu. Hugur manns breytist, þú og það sem þú ert að gera er ekki lengur í fyrsta sæti


Gunnar er tveggja barna faðir
©Torg ehf / Ernir Eyjólfsson

Ekki lengur í fyrsta sæti

Gunnar hóf feril sinn hjá UFC bardagasambandinu, því stærsta í heimi blandaðra bardagalista, árið 2012. Hann var þá ekki orðinn faðir eins og raunin er núna, en Gunnar er nú tveggja barna faðir. Hann segir margt hafa breyst með tilkomu barnanna.

„Þegar maður er byrjaður að stofna fjölskyldu breytist forgangsröðunin hjá manni. Maður er ekki lengur í fyrsta sæti – sem væri í raun besti mögulegi farvegurinn þegar að maður er atvinnumaður í einhverju,“ segir Gunnar.

„Sem atvinnumaður þarf maður að setja sig í fyrsta sæti en þegar það verður ónáttúrulegt fyrir manni þá verður það erfitt. Ég hef hins vegar alveg fundið mig í þessum aðstæðum sem faðir og fjölskyldumaður og kann miklu betur við þessar aðstæður sem ég er nú í. Maður elskar börnin sín meira en allt í lífinu. Hugur manns breytist, þú og það sem þú ert að gera er ekki lengur í fyrsta sæti.“

Það hefur því orðið talsverð breyting á því hvernig Gunnar stundar og nálgast sína iðju, ef bornar eru saman aðstæður hans við upphaf ferilsins hjá UFC og aðstæður hans núna.

„Til að byrja með var hugur manns allur í íþróttinni. Allan daginn var maður að spá í hinu og þessu henni tengdri. Það var í rauninni ekkert sem ég skipulagði í mínu lífi annað en það hvenær og hvernig ég ætlaði að æfa næst, hvernig ég ætlaði að haga næstu mánuðum með tilliti til æfinga, hvort ég ætlaði að fara erlendis að æfa og hversu lengi ég ætlaði að vera þar. Það var ekkert sem stoppaði mig og ekkert annað sem ég þurfti að spá í nema sjálfan mig,“ rifjar hann upp.

„Fyrir utan það að á þessum tíma gat ég bara farið að sofa þegar að ég vildi fara sofa og vaknað þegar að ég var hættur að vera þreyttur. Allt svona breytist þegar að maður er orðinn faðir. Það er kannski erfitt til að byrja með þar sem maður er ekki vanur því en síðan mótast maður í þetta hlutverk. Maður verður bara þetta, faðir.“

Gunnar segir þessar breyttu aðstæður auðvitað hafa verið krefjandi á sumum sviðum.

„En þetta var svo miklu, miklu betra upp á aðra hluti að gera. Maður lærir svo mikið af því að vera í þessu hlutverki og ég myndi ekki vilja hafa þetta öðruvísi. Maður elskar börnin sín meira en allt í lífinu. Hugur manns breytist, þú og það sem þú ert að gera er ekki lengur í fyrsta sæti. Þegar það síast almennilega inn sættir maður sig við það hlutskipti. Mér finnst það rosalega gott, það er mjög eðlislægt fyrir mig,“ segir hann einlægur.

Verður þreyttur á sjálfum sér

„Maður verður líka bara þreyttur á sjálfum sér. Ég var búinn að vera að spá í sjálfum mér og engum öðrum í öll þessi ár, þannig að það var bara hollt fyrir mig að verða faðir.“

Gunnar hefur það að atvinnu að berjast, það eru spor sem ansi fáir geta sett sig í og því vaknaði upp sú spurning hvort honum fyndist meira vera í húfi núna þegar hann stígur inn í búrið, verandi faðir, samanborið við hans fyrstu ár í UFC.

,,Ég held að flestir íslenskir íþróttamenn þekki þessa stöðu. Meirihlutinn af okkur, sérstaklega okkur sem erum komnir yfir 25 ára aldurinn, eru komnir með fjölskyldu. Ég þekki náttúrulega ekkert annað en akkúrat þetta sem ég starfa við og á þess vegna erfitt með að setja mig í spor annarra. En ég get horft á það þannig að það góða við að vera í einstaklingsíþróttum er sú staðreynd að ég get stýrt tíma mínum betur sjálfur samanborið við íþróttamenn í hópíþróttum.“

Gunnar setur sjálfan sig ekki lengur í fyrsta sætið
©Torg ehf / Ernir Eyjólfsson

Tækifæri til að sanna sig á ný

Í janúar á þessu ári skrifaði Gunnar undir nýjan fimm bardaga samning við UFC. Fyrsti bardaginn fer fram laugardaginn 19. mars næstkomandi þar sem Gunnar mætir Japananum Takashi Sato í O2-höllinni í Lundúnum.

Gunnar hefur tapað síðustu tveimur bardögum sínum og þurft að bíða í langan tíma eftir endurkomu í búrið til þess að sanna sig á ný. Hann er spenntur fyrir framhaldinu.

,,Það hefur liðið langur tími síðan að ég steig síðast inn í búrið og á þessum tíma hafa komið upp tækifæri sem hafa svo runnið mér úr greipum. Fyrir síðustu bardaga hef ég verið að glíma við smá meiðsli en núna er ég alveg hundrað prósent og er mjög spenntur fyrir því að fá tækifæri til þess að sanna mig á ný.“

Gunnar hefur ekki haft það að venju að setja sér markmið til lengri tíma.

,,Ég er ekki mikið í því að horfa langt fram í tímann, einbeiti mér frekar að því sem fram undan er í nánustu framtíð. Það er alltaf bara næsti bardagi og núna er ég rúmlega tilbúinn fyrir hann.“

Undirbýr sig fyrir orrustu

Það kom upp kunnugleg atburðarrás í aðdraganda komandi bardaga, en Gunnar átti fyrst að mæta Brasilíu­manninum Claudio Silva og hafði búið sig undir það, en Claudio þurfti í síðustu viku að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla. Slík staða hefur oft komið upp á ferli Gunnars og hann kippir sér ekkert sérstaklega upp við slíkar breytingar.

,,Ég er ekki þekktur fyrir það að setja öll eggin í sömu körfuna og þekki vel þessar aðstæður sem hafa komið upp núna. Auðvitað reynir maður að læra inn á andstæðinginn og sjá fyrir sér hvernig bardaginn geti mögulega spilast, en ég hef einnig lært það af reynslunni að það þýðir ekki fyrir mig að æfa einhverja fyrirfram ákveðna taktík fyrir bardagann fram undan með andstæðinginn í huga,“ segir hann.

,,Maður þarf bara að undirbúa sjálfan sig fyrir orrustu. Vissulega tekur maður tillit til styrkleika andstæðingsins og stúderar hann en reynsla mín sýnir að það er betra að vera við öllu búinn. Þetta hefur komið það oft fyrir að ég læt þetta ekkert á mig fá.“

Mætir sem hann sjálfur

Gunnar hefur einnig staðið í sömu sporum og andstæðingur hans, Takashi Sato, sem tók bardaga við Gunnar með stuttum fyrirvara.

,,Stundum barðist ég við andstæðing sem ég hafði aldrei séð áður og vissi lítið sem ekkert um. Mér finnst þetta allt í lagi en ég skil líka bardagamenn sem kjósa að gera þetta ekki því að það er mikið í húfi. Oft eru menn búnir að undirbúa sig fyrir ákveðinn andstæðing en síðan breytast aðstæður og þá getur heilmikið breyst.“

,,Fyrir síðasta bardaga hjá mér var ég búinn að undirbúa mig fyrir að mæta Thai-boxara, hann þurfti síðan að draga sig úr bardaganum og í staðinn fékk ég margfaldan heimsmeistara í glímu. Ég stressa mig hins vegar ekki á svona hlutum heldur undirbý mig bara eftir bestu getu og fer síðan og berst. Það er mitt hugarfar í gegnum þetta ferli sem og í lífinu almennt. Ég mæti bara til leiks sem ég sjálfur og tel að fólk kunni að meta það.“

Gunnar segist vera eins góður og hann hefur nokkurn tímann verið
©Torg ehf / Ernir Eyjólfsson

Dvelur ekki í skýjaborgum

Gunnar segir það ekki vera í huga sínum núna að næla sér í meistaratitla og belti en að sjálfsögðu er það honum í blóð borið sem atvinnumaður í íþróttum að sækja ávallt til sigurs.

,,Ég hef aldrei verið beint þannig þenkjandi að hugsa þennan feril minn í bardagaíþróttum eingöngu út frá því að reyna næla mér í einhver belti. Belti sem er þarna einhvers staðar skýjum ofar. Mín markmið snúast um að vinna alla bardaga sem ég fer í, það getur síðan skilað sér í titilbardaga að lokum. Ég er meira fyrir það að horfa til þess sem er beint fyrir framan mig frekar en að festast í einhverjum draumórum.“

Gunnar kemur fyrir sjónir sem mjög rólegur og yfirvegaður karakter. Hans nálgun og yfirvegun hefur vakið hylli hjá áhugamönnum um UFC en Gunnar er mjög vinsæll bardagamaður og búast má við því að hann verði á heimavelli í O2-höllinni eins og venjan hefur verið áður.

,,Mér hefur alltaf fundist mjög gaman að berjast í London, það er alltaf þvílík stemmning í höllunum þar. Það á það til að vera hrottaandi í Bretanum þannig að eftirvæntingin er mikil.“

Gunnar hefur ekki tekið sömu stefnu og margir bardagamenn sem berjast við að koma sér í sviðsljósið, rífa kjaft á samfélagsmiðlum og tala illa um andstæðinginn.

,,Þegar að ég byrjaði að fylgjast með MMA þá hafði ég gaman af mismunandi karakterum. Mér fannst það gera íþróttina skemmtilegri. Á þeim tíma var meira um það að bardögum var stillt upp á milli bardagakappa sem bjuggu yfir algjörlega gjörólíkum stíl bæði inni í búrinu en líka fyrir utan það.“

,,Ég hef ekkert sérstaklega gaman af því þegar að hlutirnir hjá bardagaköppum fara að snúast um það að slá í gegn á samfélagsmiðlum eða selja sem flesta aðganga að bardagakvöldum. Það verður þreytt oft á tíðum. Ég mæti bara til leiks sem ég sjálfur og tel að fólk kunni að meta það, þegar að maður er ekki að reyna þykjast vera einhver annar en maður er.“


Ef maður finnur ekki fyrir neinum taugum fyrir bardaga þá er kannski bara kominn tími til að snúa sér að einhverju öðru og hætta þessu


Er stressaður fyrir bardaga

En hvernig er Gunnar stemmdur fyrir bardaga? Verður hann stressaður eða jafnvel hræddur fyrir komandi átök?

,,Þetta er rosalega erfið spurning. Stundum fæ ég þessa spurningu frá ungu fólki sem er að byrja sinn feril í MMA, hvort ég sé ekki stressaður fyrir bardaga hjá mér. Auðveldasta svarið er jú, ég verð stressaður fyrir bardaga. Það verða allir stressaðir fyrir bardaga en það er bara eðlileg tilfinning og eitthvað sem maður á bara að fagna og taka á móti.“

,,Ef maður finnur ekki fyrir neinum taugum fyrir bardaga þá er kannski bara kominn tími til að snúa sér að einhverju öðru og hætta þessu. Maður á ekki að reyna útiloka og útrýma þessum tilfinningum heldur sætta sig við þær, taka þær á kassann og gera sitt eins vel og maður getur.“

Hann segist sjálfur hafa átt bardaga þar sem að honum leið ekki vel, fann að hann væri ekki að eiga sinn besta dag en að lokum hafi hann staðið sig vel. Að sama skapi hafi honum liðið mjög vel í aðdraganda bardaga en síðan ekki verið ánægður með sína frammistöðu.

,,Lykilatriðið er að dvelja ekkert við þessa hluti, maður má ekki leyfa þeim að taka sér bólfestu í huganum og hafa áhrif á mann. Maður er bara kominn hingað, er svona og sættir sig bara við það. Lífið er bara eins og það er og maður gerir bara eins vel og maður mögulega getur.“

Laugardaginn 19. mars næstkomandi mun nýr kafli hjá Gunnari Nelson hefjast í UFC. Eftir tvö töp í röð, langdregin meiðsli og tíma frá búrinu fær hann tækifæri til þess að sanna sig á ný. Spurður að því hverju við mættum búast við af honum hafði Gunnar eftirfarandi að segja:,,Þið megið búast við bestu útgáfunni af Gunnari Nelson. Ég er eins góður og ég hef nokkurn tímann verið.“

Athugasemdir