Ásta Kristins­dóttir, stiga­hæsti keppandi kvenna­lands­liðsins sem tók silfur á EM í dag, segist á­gæt­lega sátt með silfrið í dag þá sér í ljósi þess hvað hefur gengið á hjá landsliðinu síðustu mánuði og vikur.

„Til­finningin er ó­trú­lega góð og við erum bara sáttar með þetta,“ sagði Ásta þegar blaða­maður náði af henni tali eftir verð­launa­af­hendinguna. „Það er leiðin­legt að ná ekki fyrsta sætinu en þetta var það besta sem við gátum gert úr stöðunni,“ segir Ásta en lands­liðið hefur lent í þó­nokkrum meiðslum og liðs­breytingum á síðustu mánuðum.

Ásta flaug manna hæst í liðinu í dag bæði á dýnu og trampólíni.
Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

Kvenna­liðið fór í gegnum mikla endur­nýjun eftir Evrópu­meistara­titilinn í fyrra og komu fimm stelpur inn í liðið úr ung­linga­lands­liðum Ís­lands. Þá lenti liðið í miklu á­falli degi fyrir brott­för er Kol­brún Þöll Þorra­dóttir, fim­leika­kona ársins, sleit hásin á síðustu æfingu liðsins.

„Við erum búnar að missa mikið af fólki sem er í sex um­ferðum hjá okkur. Það er búið að vera mikið um á­föll þetta tíma­bil,“ segir Ásta. „Við unnum dýnuna og við getum haldið fast í það,“ segir Ásta brött.

Þá meiddist Hildur Clausen Heiðmundsdóttir í undankeppninni og gat hún því ekki stökkið í úrslitunum í dag. Andrea Sif Pétursdóttir, landsliðsfyriliði, sem sleit hásin fyrir níu mánuðum hoppaði þá inn á lokastundu en hún stökk ekki með liðinu í undankeppninni.

Ásta er langlíklegust íslenskra keppenda til að vera valin í lið mótsins eftir sína frammistöðu í dag.
Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

Ásta lét álagið ekki á sig fá

Það var alls ekki að sjá að af­föllin höfðu teljandi á­hrif á frammi­stöðu Ástu en hún átti hreint út sagt ó­trú­legan dag. Hún lenti öll stökkin sín en hún keppir með erfiðustu stökk­seríurnar í liðinu í ár. Ásta var í kjölfarið valin í lið mótsins fyrir æfingar sínar og er ljóst að hún verður ein af máttarstólpum liðsins þegar það kemur að því að endurheimta titilinn eftir tvö ár.

Hér að neðan er hægt að sjá aðra um­ferð kvenna­lands­liðsins á dýnu en Ásta kemur þar í lokin og gerir tvö­falt heljar­stökk með beinum líkama og tvö­faldri skrúfu.