Luke Rockhold, fyrrum UFC meistari í millivigt snýr aftur í bardagabúrið á laugardaginn eftir rúmlega þriggja ára fjarveru. Þrátt fyrir að vera á samningi hjá UFC bardagasamtökunum heldur Rockhold ekkert aftur af sér í gagnrýni á hendur UFC sem hann segir ógeðfellda mafíu sem hiki ekki við að stíga á skjólstæðinga sína.

Rockhold mun um helgina mæta Paulo Costa í bardagabúrinu og hann hefur í aðdraganda bardagans gagnrýnt aðferðir UFC harðlega.

„Þeim er slétt sama um þig þegar að þú tapar titlinum," sagði Rockhold í samtali við Ariel Helwani í þættinum The MMA Hour á dögunum. ,,Þetta er mafía, UFC. Þegar að þú tapar merkingu fyrir þeim munu þeir traðka á þér. Maður reynir að berjast til baka en þetta er stanslaus barátta, þetta er pirrandi. Þetta eru ógeðslegar aðferðir og það þarf að breyta þessu."

Rockhold segist ekki hræðast það að gangrýna sambandið sem hann er á samningi hjá. „Allt sem ég segi á fyllilega rétt á sér og er satt."