Nokkrum árum eftir að hafa barist við Gunnar Nel­son í bar­daga­búrinu í London mun Bretinn Leon Edwards berjast í titil­bar­daga velti­vigtar­deildarinnar gegn Ríkjandi meistara deildarinnar, Kamaru Us­man, í Salt Lake City.

Gunnar og Edwards mættust í O2-höllinni í mars árið 2019 í bardaga sem Edwards vann á klofinni dómaraákvörðun og er það í eina skiptið á UFC ferli hans sem hann hefur unnið bardaga á klofinni ákvörðun. Síðan þá hefur frægðarsól Edwards risið hærra og vermir hann nú 2. sætið á styrkleikalista UFC í veltivigtardeildinni í kjölfarið á góðum sigrum sínum í bardögum gegn Rafael Dos Anjos og Nate Diaz.

Af 14 bardögum Edwards í UFC hefur hann aðeins tapað tveimur af þeim, gegn Cláudio Silva og téðum Kamaru Usman sem er andstæðingur helgarinnar. Usman vann fyrri bardaga þeirra með nokkrum yfirburðum en án þess þó að ná að klára Edwards með rothöggi eða hengingu.

Gagnkvæm virðing milli Gunnars og Edwards

Í aðdraganda síðasta bardaga Gunnars í UFC gegn Takashi Sato í Lundúnum fyrr á þessu ári mátti sjá að vel fór á milli Gunnars og Leon Edwards sem var ansi sýnilegur dagana fyrir bardagakvöldið. Fréttaritari var á svæðinu í Lundúnum og sá hversu vel fór á milli þessara fyrrum keppinauta sem berjast í sömu deild og höfðu háð harða baráttu inn í búrinu.

Þegar ég hitti þá feðga á hóteli í Lundúnum í aðdraganda bardagakvöldsins mátti sjá Gunnar sitja í sófa á hótelinu með teymi sínu og við hlið hans var Leon Edwards, sem Gunnar. Ég rifjaði upp þetta atvik við Harald Dean Nelson, umboðsmann og föður Gunnars degi fyrir bardagakvöldið vegna þess að tilfinningin við að horfa á bardaga í UFC er oftar en ekki sú að maður heldur að eftir bardaga skilji andstæðingarnir ósáttir, búnir að lemja hvor á öðrum.

,,Okkar stefna hefur alltaf verið sú að við berum virðingu fyrir andstæðingnum og við vissum það þegar Gunnar mætti Edwards að hann væri ekki að fara á móti óvini sínum heldur keppinaut," svaraði Haraldur mér þá og svo virðist sem virðingin hafi verið gagnkvæm.

Við ramman reip að draga

Framundan er stærðarinnar verkefni fyrir Leon Edwards. Usman hefur unnið 19 bardaga í röð og varið titil sinn í veltivigtardeildinni fimm sinnum. Edwards hefur að sama skapi ekki tapað bardaga síðan að hann tapaði gegn Usman í fyrri bardaga þeirra árið 2015.

„Nú er fullkominn tími fyrir okkur að mætast á ný...Ég mæti inn í búrið til þess að mæta hinum svokallað pund fyrir pund meistara og er fullur einbeitingar," sagði Edwards í samtali við CBS.