Portúgalinn Bernando Silva skrifaði í dag undir framlengingu á samningi sínum hjá Manchester City eftir að hafa verið í lykilhlutverki á öðru tímabili sínu á Englandi.

Enska félagið greiddi 43 milljónir punda fyrir Bernando í sumarglugganum 2017 en honum tókst ekki að festa sig í sessi á fyrsta tímabili sínu.

Þrátt fyrir að hafa komið við sögu í 53 leikjum á fyrsta tímabili sínu á Englandi fékk hann yfirleitt ekki að leika þá alla en á þessu tímabili hefur hann verið einn af betri leikmönnum City.

Í fjarveru Kevin de Bruyne hefur Bernando þrifist inn á miðjunni og skorað níu mörk ásamt því að leggja upp önnur tíu.

Fyrir vikið var hann verðlaunaður með nýjum sex ára samningi í dag.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hinn 24 ára gamli Bernando þegar orðið meistari í Portúgal, Frakklandi og á Englandi þar sem hann ásamt liðsfélögum sínum, stefna á annan meistaratitilinn í röð.